Erlent

Grímu­bann í Hong Kong brýtur gegn stjórnar­skrá

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælendur hafa virt bannið að vettugi og haldið áfram að hylja andlit sín eftir að banninu var komið á.
Mótmælendur hafa virt bannið að vettugi og haldið áfram að hylja andlit sín eftir að banninu var komið á. Getty
Æðsti dómstóllinn í Hong Kong hefur dæmt að grímubannið sem stjórnvöld í sjálfstjórnarhéraðinu komu á í síðasta mánuði brjóti í bága við stjórnarskrá svæðisins.

Dómstóllinn kvað upp sinn dóm í morgun en grímubanninu var komið á til að bregðast við aðgerðum mótmælenda sem hafa staðið síðan í sumar. Með því var mótmælendum bannað að klæðast grímum á opinberum stöðum. Í dómnum segir að með banninu hafi stjórnvöld gengið á réttindi borgaranna, umfram það sem nauðsynlegt var talið.

Carrie Lam, æðsti embættismaður Hong Kong, sagði á sínum tíma að bannið væri nauðsynlegt þar sem nær allir þeir sem hafi staðið fyrir skemmdarverkum í mótmælaöldinni hafi falið andlit sín með grímum.

Mótmælendur hafa hins vegar virt bannið að vettugi og haldið áfram að hylja andlit sín eftir að banninu var komið á.

Mótmælin síðustu sólarhringana hafa að mestu snúist um umsátursástand sem hefur skapast við Fjöltækniháskólann þar sem hópur mótmælenda hefur byrgt sig inni í.

Nokkrir mótmælenda reyndu að flýja af lóðinni fyrr í dag, en þeir voru þá handteknir. Lögregla hefur beitt táragasi í baráttu sinni gegn mótmælendum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.