Erlent

Hundruð mótmælenda handtekin í Hong Kong á nýársdag

Kjartan Kjartansson skrifar
Óeirðarlögreglumaður beinir skotvopni að mótmælendum í Hong Kong á nýársdag.
Óeirðarlögreglumaður beinir skotvopni að mótmælendum í Hong Kong á nýársdag. Vísir/EPA

Lögreglan í Hong Kong handtók um fjögur hundruð manns á mótmælum sem fóru fram í borginni á nýársdag. Tugir þúsunda manna tóku þátt í áframhaldandi lýðræðismótmælum sem voru friðsöm í fyrstu en leystust upp þegar lögreglumenn skutu táragasi til að dreifa mannfjöldanum.

Til átaka kom fljótlega eftir að lögregla handtók mótmælendur í Wan Chai-hverfinu nærri útibúi HSBC-bankans sem hefur verið skotmark þeirra undanfarið. Hóp svartklæddra mótmælenda dreif að og aðrir mynduðu mannlegar keðju til að flytja vistir og aðra hluti, þar á meðal múrsteina.

Lögregla kallaði þá til liðsauka og bað skipuleggjendur mótmælanna um að leysa þau upp. Reuters-fréttastofan hefur eftir lögreglu að flestir hefðu verið handteknir fyrir að taka þátt í ólöglegri samkomu. Fólkið hafi ekki verið handtekið fyrr en eftir að lögregla hafi tilkynnt skipuleggjendum mótmælanna að ráðist yrði í aðgerðir og mótmælendum gefinn kostur á að yfirgefa svæðið.

Skipuleggjendur gagnrýna aðgerðir lögreglunnar á móti, sérstaklega að mótmælendum hafi verið gefinn skammur tími til að fara og að þeir hafi verið handteknir af handahófi.

Alls hafa um 7.000 manns verið handteknir frá því að regluleg fjöldamótmæli hófust í Hong Kong í júní. Upphaflega beindust mótmælin að umdeildu frumvarpi sem hefði heimilað framsal á Hong Kong-búum til meginlands Kína. Mótmælin héldu áfram eftir að frumvarpið var látið falla niður og snúast kröfur mótmælenda nú um fullt lýðræði og óháða rannsókn á kvörtunum um lögregluofbeldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×