Erlent

Kínversk stjórnvöld styðja Carrie Lam enn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá talningu atkvæða í Hong Kong í nótt.
Frá talningu atkvæða í Hong Kong í nótt. Vísir/AP
Miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins lýsti í dag yfir stuðningi við stjórnvöld í Hong Kong eftir að stjórnarandstaðan á þessu sjálfsstjórnarsvæði vann stórsigur í kosningum.

Kjörsókn í gær var nærri tvöföld á við það sem var fyrir fjórum árum. Framboð lýðræðissinna, sem njóta stuðnings mótmælahreyfingarinnar sem hefur krafist breytinga undanfarið hálft ár, fékk nærri sextíu prósent atkvæða og 347 þingsæti af 452. Frambjóðendur hliðhollir kúnverska kommúnistaflokknum fengu 60 sæti og óháðir 45 sæti.

Með þessu hafa lýðræðissinnar tryggt sér meirihluta í sautján af átján hverfum borgarinnar. Þetta er töluverð breyting frá síðustu héraðsstjórnarkosningum þar sem frambjóðendur hliðhollir Kommúnistaflokknum höfðu alls staðar meirihluta.

Kosið var í eiginleg hverfisráð og er ekki um miklar valdastöður að ræða. Kosningarnar voru öllu heldur táknræns eðlis og virðast borgarbúar hafa sýnt óánægju sína með Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong.

Saman fá þessi hverfisráð að velja 117 af þeim 1.200 sem skipa næsta æðsta stjórnanda borgarinnar. Þótt það sé ekki meirihluti er ljóst að lýðræðissinnar munu hafa einhver áhrif á valið, sem fer fram eftir þrjú ár.

Geng Shuang, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í dag að stjórnvöld á meginlandinu styðji Lam. „Miðstjórnin styður það eindregið að Carrie Lam leiði svæðisstjórnina í Hong Kong til áframhaldandi stjórnunar samkvæmt lögum,“ sagði Geng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×