Erlent

Fáir Bretar vilja draga úr félagsforðun

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar handtaka mótmælanda sem er andvígur félagsforðun við mótmæli sem fóru fram í London í gær.
Lögregluþjónar handtaka mótmælanda sem er andvígur félagsforðun við mótmæli sem fóru fram í London í gær. EPA/Facundo Arrizabalaga

Mjög fáir Bretar telja að nú sé rétti tíminn til að opna skóla, veitingastaði, leikvelli og aðra vettvangi á nýjan leik. 67 prósent segja ekki tímabært að draga úr félagsforðun. Sautján prósent segja rétt að opna skóla og einungis ellefu prósent segja rétt að opna veitingastaði, krár og leikvanga á nýjan leik. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var fyrir Guardian

Niðurstöðurnar þykja til marks um það að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, muni eiga erfitt með að sannfæra fólk um að sná aftur í fyrra horf, reyni hann að draga úr félagsforðun á næstunni.

Johnson sagði á fimmtudaginn að hámarki faraldursins hafi verið náð í Bretlandi en félagsforðun yrði enn stunduð um nokkuð skeið. Hann ætlar sér að fara nánar yfir áætlanir sínar og tillögur í næstu viku.

Á upplýsingafundi í dag var gefið í skyn að dregið yrði úr takmörkunum á því hvað fólk mætti gera utandyra. Ljóst væri að útbreiðsla nýju kórónuveirunnar hefði ekki verið mikil utandyra.

Heilt yfir hafa 182.260 greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur, á Bretlandi og minnst 28.131 hefur dáið. Fjöldi látinna hækkaði um 621 í dag.

Ríkisstjórn Johnson hefur verið gagnrýnd vegna viðbragða hennar við faraldrinum og á undanförnum vikum hafa kannanir sýnt að mikil fjölgun hefur verið í hópi þeirra sem telja ríkisstjórnina hafa staðið sig illa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×