Íslenski boltinn

Bandarísku háskólameistararnir buðu Elínu Mettu skólastyrk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen í leik með 23 ára landsliðinu á dögunum.
Elín Metta Jensen í leik með 23 ára landsliðinu á dögunum. Vísir/Ernir
Landsliðskonan Elín Metta Jensen mun fylgja í fótsport Dagnýjar Brynjarsdóttur og Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur og spila með bandarísku háskólameisturunum í Florida State en þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Elín Metta hefur gert munnlegt samkomulag við skólann en Dagný og Berglind hjálpuðu liðinu að vinna háskólatitilinn í desember. Dagný hefur klárað sitt nám en Elín Metta mun spila með Berglindi.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir fótboltakonu - að fá styrk til náms og spila fyrir þetta lið. Þetta er stökkpallur út í atvinnumennskuna enda er fótboltinn tekinn mjög alvarlega þarna og allt gert til þess að bæta leikmenn. Eftir dvölina þarna er maður betur tilbúinn að taka næsta skref," segir Elín Metta Jensen metnaðarfull í samtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag.

Þetta eru samt ekki alltof góðar fréttir fyrir Valsmenn því þetta þýðir að Elín Metta missir af enda tímabilsins næstu fjögur árin. „Það væri kannski sniðugt að endurskoða mótafyrirkomulagið eitthvað svo hægt sé að koma til móts við þá sem vilja fara til Bandaríkjanna en ég veit ekki hvort það er hægt. Það vilja margir nýta sér þetta tækifæri en ég er viss um að margir hætta líka við vegna þess að tímabilin skarast," sagði Elín Metta í viðtalinu við Sindra.

Elín Metta Jensen hefur skorað 45 mörk í 61 leik með Val í Pepsi-deild kvenna þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gömul. Aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað fleiri mörk fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×