Erlent

Yahya Hassan látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Yayha Hassan vakti mikla athygli fyrir ljóð sín og kom meðal annars til Íslands árið 2014 til að kynna ljóðabók sína sem seldist í bílförmum.
Yayha Hassan vakti mikla athygli fyrir ljóð sín og kom meðal annars til Íslands árið 2014 til að kynna ljóðabók sína sem seldist í bílförmum. GETTY/FRANCIS DEAN

Danska ljóðskáldið Yahya Hassan er látið. Hann fannst örendur í íbúð sinni í vesturhluta Árósa í gær. Hann var 24 ára gamall.

Talsmaður lögreglunnar í Árósum segir lögregluna hafa fundið lík karlmanns á þrítugsaldri í borginni í gær. Ekkert bendi til þess á þessum tímapunkti að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. BT hefur eftir fjölskyldumeðlimum Hassan að hann sé hinn látni.

Hassan vakti mikla athygli þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 2013, þá átján ára að aldri. Ljóðabókin seldist í miklu magni en í henni lýsti hann uppvaxtarárum sínum í innflytjendahverfi í Árósum. Hann kom til Íslands árið 2014 til að kynna bók sína.

Síðan þá hefur hann reglulega ratað í fjölmiðla; ekki síst fyrir harða gagnrýni sína á Islam, stjórnmálaþátttöku og lögbrot. Þannig var hann dæmdur í næstum tveggja ára fangelsi fyrir að hafa skotið ungling í fótinn.

Dómstóll í Árósum gerði honum að leita sér geðrænnar aðstoðar haustið 2018 eftir að hafa verið dæmdur fyrir 42 brot, sem hann játaði skýlaust. Til að mynda gekkst Hassan við því að hafa ráðist á félaga sinn með brotinni glerflösku og hótað honum lífláti. Þá var hann einnig ákærður fyrir önnur ofbeldisbrot, hótanir, skemmdarverk og brot gegn nálgunarbanni.

Hann sendi frá sér ljóðabókina Yahya Hassan 2 undir lok síðasta árs, sem tilnefnd var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.