Íslenski boltinn

Þrjú hlé í leikjum og engin innköst

Sindri Sverrisson skrifar
Markmenn í yngstu flokkum mega nú rekja boltann af stað sjálfir í stað þess að taka hefðbundna markspyrnu.
Markmenn í yngstu flokkum mega nú rekja boltann af stað sjálfir í stað þess að taka hefðbundna markspyrnu. VÍSIR/VILHELM

Stjórn KSÍ hefur samþykkt breytingar á reglum um knattspyrnuleiki yngstu flokka, þar sem spilað er í 5, 7 og 8 manna liðum. Innspörk eða knattrak koma í stað innkasta og heimilt verður að rekja boltann úr markspyrnu.

Breytingarnar á reglum um innköst og markspyrnur gilda fyrir leikmenn í 5. flokki og yngri. Munu markmenn nú geta rakið boltann af stað í staðinn fyrir að taka hefðbundna markspyrnu. Mótherjar skulu vera utan vítateigs þar til að boltinn er kominn í leik.

Þegar boltinn fer út fyrir hliðarlínu skal framkvæmt innspark í stað innkasts áður, en óheimilt er að skora úr innsparki og ekki má spyrna boltanum hærra en í hnéhæð. Leikmenn geta einnig rakið boltann úr kyrrstöðu af hliðarlínu, í stað þess að taka innspark, og er þeim heimilt að skora eftir að hafa rakið boltann af stað. Mótherjar verða að standa að minnsta kosti tveimur metrum frá spyrnustaðnum á hliðarlínunni.

Þá hafa verið gerðar breytingar á leiktíma í 5. flokki. Leikir verða nú 2x30 mínútur í stað 2x20 mínútna. Leikhlé verður eftir sem áður fimm mínútur, en auk þess verður tveggja mínútna hlé um miðjan fyrri hálfleik og tveggja mínútna hlé um miðjan seinni hálfleik.

Reglubreytingarnar ríma vel við málflutning Arnars Þórs Viðarssonar, sviðsstjóra knattspyrnusviðs KSÍ og þjálfara U21-landsliðs karla, enda eru breytingarnar gerðar að tillögu knattspyrnusviðs. Hefur Arnar til að mynda bent á að með því að hafa fleiri en eitt leikhlé geti þjálfarar átt auðveldara með að þróa leik sinna leikmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×