Erlent

Dauðadómi vegna morðs blaðamanns Wall Street Journal snúið við í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Judea Pearl, faðir Daniel Pearl, við hlið myndar af syni hans.
Judea Pearl, faðir Daniel Pearl, við hlið myndar af syni hans. AP/WILFREDO LEE

Dómstóll í Pakistan hefur snúið við dauðadómi yfir pakistönskum manni vegna mannráns og morðs blaðamanns Wall Street Journal árið 2002. Blaðamaður Daniel Pearl hvarf þegar hann var að rannsaka öfgastarfsemi í Pakistan í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í New York ári áður.

Nánar tiltekið hvarf hann þegar hann leitaði upplýsinga um tengsl á milli pakistanskra vígamanna og Richard C. Reid, sem var handtekinn með sprengju í skóm sínum um borð í flugvél sem flogið var frá París til Miami. Mánuði síðar barst yfirvöldum myndband sem sýndi afhöfðun hans.

Lík Pearl fannst í grunnri gröf fyrir utan borgina Karachi, fjórum mánuðum eftir að hann hvarf.

Omar Saeed Sheikh, sem fæddist í Bretlandi, var dæmdur til dauða vegna morðsins skömmu seinna. Saksóknarar sögðu hann hafa leitt Pearl í gildru, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hann viðurkenndi að hafa komið að ráni Pearl en ekki morðinu.

Hann hefur setið í fangelsi síðan en nú hefur sá dómur verið felldur niður og hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir mannrán. Lögmaður hans segir að sleppa eigi honum úr fangelsi hið snarasta.

Dómum gegn þremur öðrum mönnum sem voru dæmdir vegna morðsins var einnig snúið við og er búið að sleppa þeim, samkvæmt frétt BBC.

Sjö aðrir, þar á meðal þeir sem eru taldir hafa myrt Pearl, voru aldrei handteknir.

Hópur bandarískra blaðamanna, meðal annars nokkurra sem störfuðu með Pearl hjá Wall Street Journal, hafa haldið því fram að Khalid Sheikh Mohammed, sem var um tíma einn af æðstu mönnum al-Qaeda, hafi myrt Pearl. Hann var handsamaður í Pakistan árið 2003 og fluttur til Guantanamo Bay og hefur hann verið ákærður í tengslum við árásanna á tvíburaturnana.

Þá er Sheikh Mohammed sagður hafa viðurkennt við yfirheyrslu að hafa afhöfðað Pearl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×