Erlent

WHO lýsir yfir neyðarástandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Tæplega átta þúsund manns hafa nú smitast af veirunni, svo staðfest sé, og eru nærri því allir þeirra í Kína. Þá hafa 170 dáið.
Tæplega átta þúsund manns hafa nú smitast af veirunni, svo staðfest sé, og eru nærri því allir þeirra í Kína. Þá hafa 170 dáið. Vísir/AP

Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, hefur ákveðið að lýsa yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna Wuhan-veirunnar svokölluðu. Þó sé ekki tilefni til að takmarka ferðalög fólks og flutninga. Yfirlýsing WHO felur í sér að hættan af veirunni hafi náð út fyrir Kína, þar sem hún stakk upp kollinum í síðasta mánuði.

Wuhan-veiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV. Tæplega átta þúsund manns hafa nú smitast af veirunni, svo staðfest sé, og eru nærri því allir þeirra í Kína. Þá hafa 170 dáið. Veiran hefur nú í heild greinst í nítján ríkjum og er vitað til þess að hún hafi smitast á milli manna í öðrum ríkjum en Kína.

Þar má nefna Japan, Þýskaland, Kanada , Bandaríkin og Suður-Kóreu og Víetnam.

Yfirlýsing WHO felur einnig í sér að meiri peningum og öðrum aðföngum verður varið í baráttuna gegn veirunni. Þetta var í þriðja sinn sem nefndin fundar um Wuhan-veiruna en hingað til hafði hún ákveðið að lýsa ekki yfir neyðarástandi.

Þó WHO segi ekki tilefni til að takmarka ferðalög fólks er það ákvörðun einstakra ríkja. Rússar hafa til dæmis lokað landamærum sínum og Kína og gætu fleiri ríki tekið svipaðar ákvarðanir.


Tengdar fréttir

SAS stöðvar ferðir til Kína

Norræna flugfélagið SAS hefur ákveðið að aflýsa öllum flugferðum félagsins til og frá Kína fram til 9. febrúar hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×