Erlent

Meira en milljón greinst með kórónuveiruna í Bandaríkjunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir að á endanum muni engin tilfelli kórónuveiru greinast í Bandaríkjunum en nú greinist mörg tiflelli því svo margir fari í próf til að athuga hvort þeir séu smitaðir.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir að á endanum muni engin tilfelli kórónuveiru greinast í Bandaríkjunum en nú greinist mörg tiflelli því svo margir fari í próf til að athuga hvort þeir séu smitaðir. Doug Mills/Getty

Meira en ein milljón Bandaríkjamanna hefur nú greinst með kórónuveiruna samkvæmt nýjum gögnum frá Johns Hopkins-háskólanum.

Hvergi annars staðar í heiminum hafa fleiri greinst með veiruna og hvergi annars staðar hafa fleiri látið lífið af völdum hennar, eða alls um 57.000 manns.

Samkvæmt gögnum frá Johns Hopkins hafa um þrjár milljónir manna um heim allan greinst með veiruna og er því einn þriðji hluti greindra tilfella í Bandaríkjunum.

Þá eru tilfellin í Bandaríkjunum umtalsvert fleiri en í öðrum ríkjum heims. Næstflest tilfelli hafa greinst á Spáni eða rúm 230.000 og á Ítalíu hafa rúmlega 200.000 manns greinst með veiruna. Í engu öðru landi hafa fleiri en 200.000 greinst.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, var í dag inntur eftir viðbrögðum við því að meira en milljón manns hefðu nú smitast í landinu en hann sagði í febrúar, þegar aðeins fimmtán tilfelli voru staðfest í Bandaríkjunum, að fljótlega yrðu þau næstum engin.

„Á endanum verða engin tilfelli. Þið verðið að skilja að það er enginn að prófa jafnmikið og við,“ svaraði Trump í dag og ítrekaði að ekkert land í heiminum væri að prófa eins mikið fyrir veirunni og gert væri í Bandaríkjunum.

„Þannig að hér munu greinast fleiri tilfelli því við erum að prófa miklu, miklu meira en aðrir, tvöfalt á við aðra. Og eins og við segjum, þá mun þetta fara niður í núll á réttum tíma,“ sagði Trump.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×