Íslenski boltinn

„Ekki króna inn á okkar reikning sem ekki er búið að ráðstafa“

Sindri Sverrisson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í höfuðstöðvunum í dag.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í höfuðstöðvunum í dag. MYND/STÖÐ 2

„Það er ekki að koma króna ný inn á okkar reikning sem ekki er búið að ráðstafa,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, varðandi styrki frá FIFA og UEFA. Styrkirnir berast sambandinu fyrr en ella vegna kórónuveirukrísunnar.

UEFA hefur ákveðið að flýta útdeilingu styrkja til aðildarsambanda sinna en þeir nema að hámarki jafnvirði 680 milljóna króna fyrir hvert samband. Klara segir KSÍ reyndar ekki uppfylla öll skilyrði til að fá hámarksupphæðina, til að mynda haldi KSÍ ekki úti futsal-landsliði. Þá fær KSÍ að minnsta kosti 73 milljóna króna fyrirframgreiðslu frá FIFA.

Í hvorugu tilvikinu er því um „nýja“ styrki að ræða, aðeins fyrirframgreiðslur.

„Þetta er bara peningur sem við gerðum ráð fyrir í rekstrinum. Þetta er peningur sem fer í það að reka mótahaldið hjá okkur, borga laun dómara, borga laun starfsmanna, halda úti yngri landsliðum og annað slíkt. Þetta er allt niðurnjörvað í okkar áætlunum og við erum með fimm ára áætlun varðandi okkar rekstur. Það er gert ráð fyrir hverri krónu þar,“ sagði Klara við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2.

Aðspurð hvort að félögin í landinu gerðu ekki ákall til þessara peninga, í ljósi erfiðrar stöðu nú, benti Klara á að KSÍ hefði einmitt aðstoðað aðildarfélög sín með fyrirframgreiðslum á síðustu vikum.

„Félögin í landinu gera ákall til og biðja um stuðning við sinn rekstur sem er mjög erfiður núna. Félögin eru að tapa miklum peningum á hverjum degi og það er þröngt í búi þar. Félögin eru því að leita aðstoðar hjá Knattspyrnusambandinu og sambandið hefur verið að fara yfir það. Við höfum verið að greiða fyrir fram síðustu vikur og erum að skoða stöðuna varðandi hvað við getum gert frekar,“ sagði Klara.

Klippa: Sportpakkinn - KSÍ fær styrki frá FIFA og UEFA fyrr

Tengdar fréttir

KSÍ fær 680 milljónir frá UEFA

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur ákveðið að veita hverju aðildarsambandi sínu 4,3 milljónir evra eða jafnvirði rúmlega 680 milljóna íslenskra króna, vegna kórónuveirukrísunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×