Erlent

Telja mun fleiri hafa látist í Bandaríkjunum í upphafi faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Kæligámar sem komið var fyrir við Bellevue-sjúkrahúsið í New York til að taka við líkum þeirra sem létust úr Covid-19 í mars.
Kæligámar sem komið var fyrir við Bellevue-sjúkrahúsið í New York til að taka við líkum þeirra sem létust úr Covid-19 í mars. Vísir/EPA

Allt að tvöfalt fleiri gætu hafa látist af völdum nýs afbrigðis kórónuveiru í Bandaríkjunum á fyrstu vikum faraldursins en opinberar tölur segja til um. Rúmlega fimmtán þúsund fleiri dauðsföll urðu í Bandaríkjunum í mars en á venjulegu ári.

Greining rannsakenda við lýðheilsuskóla Yale-háskóla fyrir Washington Post bendir til þess að umframdauðsföll hafi verið 15.400 fleiri í mars til 4. apríl en á sambærilegu tímabili í meðalári. Á sama tíma voru 8.128 dauðsföll opinberlega rakin til Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur.

Það þýðir þó ekki að öll umframdauðsföllin hafi verið beinlínis vegna Covid-19. Inn í þeirri tölu er fólk sem lést vegna faraldursins því það þorði ekki að leita sér meðferðar gegn öðrum sjúkdómum auk mögulega náttúrulegrar sveiflu í dánartíðni á milli ára. Aðrir þættir eru sagðir geta haft áhrif á tölu látinna, bæði til hækkunar og lækkunar, þar á meðal sjálfsvíg, morð og bílslys.

Engu að síður benda tölurnar til þess að alvarleiki faraldursins hafi verið verulega vanmetinn í Bandaríkjunum til þessa. Samkvæmt opinberum tölum hafa 54.000 manns látið lífið af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. Hvergi hafa fleiri látist í faraldrinum ef marka má opinberar tölur.

Telur tölu látinna enn eiga eftir að hækka

Lýðheilsusérfræðingar segja bandaríska dagblaðinu að seinkun á tilkynningum um dauðsföll auk þess sem nærri því öll ríki hafi í fyrstu aðeins talið dauðsföll þeirra sem höfðu greinst formlega með sjúkdóminn skýri að hluta til hvers vegna opinberar tölur segi aðeins hálfa söguna um fjölda látinna í faraldrinum.

Fleiri lönd virðast enn vantelja raunverulegan fjölda látinna en víða hefur lítil skimun farið fram vegna veirunnar. Í Bretlandi er þannig talið að umtalsvert fleiri hafi látist en opinberar tölur gefa til kynna.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York sem hefur verið miðpunktur faraldursins í Bandaríkjunum, gekkst við því í síðustu viku að opinberar tölur gæfu ekki rétta mynd af mannskaðanum í faraldrinum þrátt fyrir að stjórnvöld þar hafi gengið lengra en flest önnur ríki í að telja fleiri dauðsföll.

„Talan á eftir að fara upp. Þessi dauðsföll eru bara dauðsföll á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Þarna er ekki það sem er kallað heimadauðsföll,“ sagði Cuomo á blaðamannafundi í síðustu viku.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×