Erlent

Tæp­lega fjögur þúsund dauðs­föll skráð vegna Co­vid-19 á einum sólar­hring í Banda­ríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Fámenni á Times-torgi í New York.
Fámenni á Times-torgi í New York. Getty

Bandarísk heilbrigðis yfirvöld hafa nú skráð 3.953 dauðsföll vegna kórónuveirunnar á einum sólarhring. Þetta kemur fram í tölum frá Johns Hopkins háskóla, en tímabilið sem um ræðir er frá klukkan þrjú á föstudagsmorgni að íslenskum tíma og til klukkan þrjú um nýliðna nótt.

Á sama tímabili, sólarhring fyrr, voru skráð dauðsföll í Bandaríkjunum vegna veirunnar 2.257 talsins.

Alls eru nú skráð 37.175 dauðsföll í Bandaríkjunum sem rakin eru til covid-19, en smitin telja nú alls 710.272 í landinu. Hefur þeim nú fjölgað um 30 þúsund frá í gær, en talið er að einnig sé um að ræða mikinn fjöldi óskráðra smita í bandarísku samfélagi. Alls hafa um 60 þúsund hinna smituðu náð bata.

Ef litið er til Bandaríkjanna í heild þá er tíðni dauðsfalla 11,3 á hverja 100 þúsund íbúa. Sé litið til New York borgar, sem farið hefur verst út úr faraldrinum er tíðnin hins vegar 157,4 á hverja 100 þúsund íbúa. Til samanburðar má nefna að talan á Ítalíu er 37,7 á hverja 100 þúsund íbúa, en á Spáni 42,6.

Alls hafa verið skráð 13.202 dauðsföll af völdum covid-19 í New York. Dauðsföllin voru skráð 11.477 í gær og efur þeim því fjölgað um 15 prósent á einum sólarhring.

Samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins hafa verið tekin sýni úr alls 3,6 milljónum manna í Bandaríkjunum. Bandarísk yfirvöld stefna að því að halda sýnatökum áfram og opna samfélagið á ný í skrefum.


Tengdar fréttir

Trump hvetur fólk til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum

Íhaldsmenn í þremur ríkjum þar sem demókratar eru ríkisstjórar hafa komið saman til að mótæla aðgerðum gegn kórónuveirufaraldrinum í gær og í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti mótmælendurna til dáða á Twitter í dag þrátt fyrir kröfur þeirra stangist á við leiðbeiningar alríkisstjórnarinnar.

Upplýsingafundirnir sem urðu að kosningafundum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur breytt upplýsingafundum ríkisstjórnar sinnar um faraldur nýju kórónuveirunnar í pólitískan viðburð þar sem hann dreifir kosningaáróðri og jafnvel rangfærslum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×