Erlent

Varar við nýrri Net­flix-seríu Gwyneth Paltrow

Atli Ísleifsson skrifar
Gwyneth Paltrow á frumsýningu The Goop Lab fyrr í mánuðinum.
Gwyneth Paltrow á frumsýningu The Goop Lab fyrr í mánuðinum. Getty

Yfirmaður bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS hefur varað við nýrri þáttaröð bandarísku leikkonunnar Gwyneth Paltrow, The Goop Lab, sem sýnd er á streymisveitunni Netflix. Simon Stevens segir að almenningi stafi „talsverð hætta“ af þáttunum.

Þættirnir eru teknir upp á rannsóknarstofu vörumerkjalínu leikkonunnar, Goop. Er þar verið að kanna skilvirkni óhefðbundinna meðferða við bæði líkamlegum og andlegum meinum.

Talsmenn Netflix segja þáttaröðina hannaða til að skemmta áhorfendum, en ekki að veita fólki heilbrigðisráðgjöf.

Í frétt BBC er haft eftir Stevens að með þáttunum sé verið að dreifa villandi upplýsingum. Ræðir hann bæði um vafasamar vörur og varasamar starfsaðferðir.

Þættirnir, sem eru sex talsins, voru teknir til sýninga á Netflix fyrir sléttri viku.

Goop má rekja aftur til ársins 2008 þegar Paltrow og vinir hennar hófu útgáfu fréttabréfs, en fyrsta verslun Goop í Bretlandi opnaði svo í London á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×