Enski boltinn

Segir að Kane væri heimskur að fara ekki frá Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane er 17 marka maður á tímabilinu.
Harry Kane er 17 marka maður á tímabilinu. vísir/getty

Það væri heimskulegt hjá Harry Kane að fara ekki til liðs þar sem hann á meiri möguleika á að vinna titla en hjá Tottenham. Þetta segir Chris Sutton, fyrrverandi leikmaður Blackburn Rovers, Chelsea, Celtic og fleiri liða.

Kane, sem er 26 ára, hefur gefið í skyn að hann muni hugsa sér til hreyfings ef Tottenham fer ekki að gera sig gildandi í baráttunni um titla á næstunni.

Sutton segir að Kane eigi að stökkva á tækifærið ef lið á borð við Liverpool eða Manchester City vilja fá hann.

„Allir skilja að hann vilji vinna eitthvað. Og ef hann vill það væri skiljanlegt að hann myndi færa sig um set,“ sagði Sutton á BBC.

„Spurs er frábært félag en eins og staðan er núna eru þeir langt á eftir félögum eins og Liverpool og City. Ef þessi félög vilja fá hann væri hann heimskur að fara ekki.“

Tottenham var í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins. Þá er liðið dottið út úr ensku bikarkeppninni og í afar erfiðri stöðu eftir 0-3 tap fyrir Bayern München í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Kane hefur ekkert leikið með Tottenham síðan á nýársdag vegna meiðsla. Hann hefur skorað 17 mörk í öllum keppnum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×