Erlent

Segir Bandaríkin „í góðri stöðu“ til að takast á við faraldurinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Bandaríkin í „mjög góðri stöðu“ til að takast á við kórónuveirufaraldurinn, og á hann þar við þann fjölda öndunarvéla sem til verða í landinu þegar faraldurinn nær hámarki.

BBC hefur eftir forsetanum að minnst tíu fyrirtæki væru nú á fullu að framleiða öndunarvélar, en þær eru afar mikilvægar þegar þeir sjúklingar sem veikjast hvað mest af COVID-19 eru meðhöndlaðir.

Þá segir Trump að búið sé að prófa meira en eina milljón Bandaríkjamanna fyrir veirunni. Yfir 160 þúsund hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum og tæplega þrjú þúsund látið lífið. Verst er ástandið í New York-ríki, þar sem nær 800 hafa látist af völdum COVID-19.

Bandaríkin urðu þá í síðustu viku það land þar sem flest smit hafa greinst, en áður höfðu Ítalía og Kína hampað þeim óeftirsóknarverða titli.

Forsetinn varaði einnig við því að erfiðir tímar væru fram undan fyrir Bandarísku þjóðina og nefndi næstu 30 daga sérstaklega í því samhengi.

„Við erum að leggja allt í sölurnar, þessir 30 dagar, svo mikilvægir, því við verðum að koma aftur,“ sagði forsetinn og bætti við að félagsleg fjarlægð (e. social distancing) gæti átt eftir að bjarga meira en milljón mannslífum í Bandaríkjunum.

„Við munum vinna frábæran sigur,“ sagði forsetinn einnig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.