Erlent

Írum sagt að halda sig heima fram að páskum

Samúel Karl Ólason skrifar
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands.
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. AP/Steve Humphreys

Yfirvöld Írlands hafa skipað íbúum landsins að halda sig heima næstu tvær vikurnar, eða til 12. apríl. Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, tilkynnti að gripið yrði til þessara aðgerða í kvöld en þær eru þó nokkuð umfangsmiklar og taka gildi á miðnætti. Samkomur verða bannaðar og næstu því öllum verslunum ríkisins verður lokað.

Írar mega fara út til að kaupa mat, lyf og aðrar nauðsynjar, leita til læknis, stutta líkamsrækt eða í mikilvægar heimsóknir.

Almenningssamgöngur verða eingöngu aðgengilegar mikilvægum starfsstéttum, samkvæmt frétt Sky News. Þeir sem eru eldri en 70 mega ekki yfirgefa heimili sín við nokkrar kringumstæður.

Þrír dóu síðasta sólarhringinn og 302 ný smit greindust á Írlandi. Í heildina hafa 22 dáið og 2.121 smitast.

Í ræðu sinni í kvöld sagði Varadkar að Írar hefðu þurft að berjast af mikilli hörku fyrir frelsi þeirra. Það væri erfitt að draga úr frelsi íbúa með þessum hætti, þó það væri einungis tímabundið. Það væri þó nauðsynlegt til að vernda líf.

„Í kvöld biðla ég til hvers manns, konu og barns í landi okkar að færa þessa fórn. Ekki í eigin hag heldur annarra,“ sagði Varadkar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×