Enski boltinn

„Sakna þess að geta ekki faðmað fólkið mitt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikel Arteta er eini knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem hefur greinst með kórónuveiruna.
Mikel Arteta er eini knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem hefur greinst með kórónuveiruna. vísir/getty

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að kórónuveirufaraldurinn eigi að breyta viðhorfi fólks og minna það á hvað skipti máli í lífinu.

Arteta greindist með kórónuveiruna fyrr í þessum mánuði en hefur náð sér. Hann segir að einangrunin hafi tekið á.

„Við lifum í veröld þar sem samfélagsmiðlar eru alls ráðandi. En hversu mikilvægt er að faðma hvert annað? Ég sakna þess að geta ekki faðmað fólkið mitt,“ sagði Arteta.

„Við verðum að vera opnari og segja öðrum hvernig okkur líður.“

Arteta segir að heimsbyggðin verði að læra af þeim hremmingum sem hún hefur lent í að undanförnu.

„Þetta er ein veira sem hefur sett heiminn á hliðina og breytt forgangsröðun okkar. Við verðum að læra af þessu,“ sagði Arteta.

Spánverjinn var ráðinn stjóri Arsenal í desember í fyrra. Hann hefur stýrt Skyttunum í 16 leikjum; átta hafa unnist, sex endað með jafntefli og tveir tapast.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.