Enski boltinn

Hjálpaði við að slá út Liverpool á dögunum en gæti verið á leiðinni þangað í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Gimenez tæklar Mohamed Salah í Meistaradeildarleiknum á móti Liverpool á  Anfield á dögunum þar sem Atletico liðið sló út Evrópumeistarana. 
Jose Gimenez tæklar Mohamed Salah í Meistaradeildarleiknum á móti Liverpool á  Anfield á dögunum þar sem Atletico liðið sló út Evrópumeistarana.  Getty/Robbie Jay Barratt

Spænska blaðið AS segir að Liverpool sé alvarlega að skoða það að kaupa miðvörð frá spænska liðinu Atletico Madrid.

Liverpool er að fara að losa sig við Dejan Lovren og leitar nú að eftirmanni hans. Einn af þeim sem kemur til greina var Liverpool liðinu til trafala á dögunum.

Jose Gimenez átti þátt í að slá Liverpool út úr Meistaradeildinni en spænskt stórblað slær því nú upp að enska félagið sé að hugsa um að kaupa hann.

Jose Gimenez getur spilað báðar miðvarðarstöðurnar en hann getur einnig leyst af sem hægri bakvörður eða sem afturliggjandi miðjumaður.

Joe Gomez og Joel Matip hafa báðir spilað mikið við hlið Virgil van Dijk í miðri Liverpool vörninni en um leið hafa þeir verið mikið meiddir. Jürgen Klopp þarf því meiri breidd í miðri vörninni.

Samkvæmt frétt spænska stórblaðsins þá er hægt að kaupa upp samning Jose Gimenez fyrir 110 milljónir punda en samningurinn er til ársins 2023. Liverpool mun aftur á móti reyna að fá hann fyrir mun minna.

Jose Gimenez var nefnilega ekki í byrjunarliði Atlético í leikjum á móti Liverpool en kom inn á sem varamaður í framlengingunni í seinni leiknum á Anfield. Hann hefur ekki alveg verið í náðinni hjá Diego Simeone á þessari leiktíð.

Jose Gimenez er 25 ára Úrúgvæmaður sem hefur spilað með Atlético Madrid frá árinu 2013. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2013 og hefur alls spilað 58 landsleiki fyrir Úrúgvæ.

AS segir enn fremur að Liverpol sé að skoða Alessandro Bastoni hjá Internazionale og Dayot Upamecano hjá RB Leipzig sem aðra kosti takist liðinu ekki að kaupa Jose Gimenez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×