Erlent

Saksóknarar rannsaka mann sem sankaði að sér hreinlætisvörum

Samúel Karl Ólason skrifar
Víða um heim hafa hreinlætisvörur eins og sótthreinsiefni selst upp.
Víða um heim hafa hreinlætisvörur eins og sótthreinsiefni selst upp. AP/Nam Y. Huh

Saksóknarar í Tennessee í Bandaríkjunum hófu nýverið rannsókn á manni sem hafði sankað að sér gífurlegum birgðum af hreinsunarvörum og reyndi að selja þær á netinu með gífurlegri álagningu.

Þann fyrsta mars, degi eftir að fyrsta dauðsfallið vegna nýju kórónuveirunnar var staðfest í Bandaríkjunum byrjuðu Matt Colvin og bróðir hans að sanka að vörum. Þeir vörðu þremur dögum í að keyra um ríkið og Kentucky og kaupa allt sótthreinsiefni sem þeir komu höndum yfir.

Síðan reyndu þeir að selja sótthreinsiefnið á Amazon með mikilli álagningu.

Amazon lokaði þó fljótt á slíka sölu og varaði við því að fólk sem reyndi að hagnast á faraldrinum yrði bannað af fyrirtækinu. Þá kvartaði Colvin yfir því í viðtali við New York Times að hann ætti 17.700 brúsa af sótthreinsiefni og gæti hvergi selt það.

Colvin er líklegast einn margra í svipaðri sögu en hann varð fyrir mikilli heift á netinu og víðar. Meðal annars bárust honum morðhótanir og var hann sakaður um að reyna að hagnast á faraldrinum.

Því hét hann að gefa frá sér birgðirnar.

Hann leitaði hjá hjálparstarfsmanna kirkjunnar og var tveimur þriðju af birgðum hans dreift til fátækra í Tennessee. Það virðist þó hafa verið of seint, því starfsmenn ríkissaksóknara Tennessee tóku restina af birgðum Colvin og stendur til að senda það til Kentucky.

Í öðru samtali við New York Times frá því í gær segist Colvin sjá eftir aðgerðum sínum og sagðist ekki hafa áttað sig á því hve umfangsmikill faraldurinn yrði og hve mikill skortur yrði á sótthreinsiefni.

Hann brast í grát þegar hann lýsti þeim hótunum sem honum hafði borist og sendi blaðamönnum meðal annars póst þar sem aðili hótaði að myrða fjölskyldu hans.

„Það var aldrei ætlun mín að halda nauðsynlegum heilbrigðisvörum frá þeim sem þurfa á þeim að halda,“ sagði Colvin grátandi.

Samkvæmt lögum Tennessee er ólöglegt að stunda athæfi sem þetta í neyðarástandi. Mögulega verður Colvin sektaður um þúsund dali.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×