Erlent

Segir forystu Repúblikanaflokksins aumkunarverða og kunna ekkert nema að tapa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald Trump hefur ekki átt sjö dagana sæla.
Donald Trump hefur ekki átt sjö dagana sæla. AP/Susan Walsh

Svo virðist sem uppreisn sé hafin gegn ofríki Donald Trump innan Repúblikanaflokksins en forsetinn fór mikinn á Twitter í dag eftir að samflokksmenn hans í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykktu að þvinga í gegn frumvarpi um fjárveitingar til hermála, sem Trump hafði neitað að lögfesta með undirskrift sinni.

„Veik og þreytt „forysta“ repúblikana mun leyfa hinu slæma varnarmálafrumvarpi að fara í gegn,“ sagði forsetinn meðal annars. „Skammarlegur gunguháttur og algjör undirgefni veikgeðja fólks gagnvart stóru tæknifyrirtækjunum. Semjið um betra frumvarp eða skiptið forystunni út, NÚNA!“

Eftir að hafa haft hreðjatak á þingmönnum Repúblikanaflokksins um langt skeið virðist sem gripið sé að losna. Margir hafa sagt að flokksmönnum sé hollast að vera Trump þóknanlegir, þar sem áhrif hans á ákveðinn hóp kjósenda eru óumdeilanleg  og hæfileikar hans til að fylla stríðskisturnar sömuleiðis.

Þá gera margir ráð fyrir að hann freisti þess að ná aftur Hvíta húsinu 2024.

Nú er forsetinn hins vegar í þeirri undarlegu stöðu að njóta stuðnings demókrata þegar kemur að því að auka fjárhagsaðstoð til almennings í Covid-19 faraldrinum og vera í andstöðu við samflokksmenn sína hvað varðar hermálafrumvarpið.

„Getið þið ímyndað ykkur ef repúblikanar stælu forsetakosningum af demókrótum... Allt færi til andskotans,“ tísti forsetinn, sem virðist ekki enn hafa sætt sig við að hafa tapað Hvíta húsinu.

„Forysta repúblikana vill bara fara auðveldustu leiðina. Leiðtogar okkar (ekki ég, að sjálfsögðu) eru aumkunarverðir. Þeir kunna bara að tapa! P.S. Ég fékk MARGA öldungadeildarþingmenn og þingmenn/þingkonur kjörna. Ég held þeir hafi gleymt því!“


Tengdar fréttir

Gaf Demókrötum gullið tækifæri

Þingmenn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykktu í gærkvöldi frumvarp um að senda hverjum Bandaríkjamanni tvö þúsund dala ávísun, en ekki 600 dali eins og til stendur. Donald Trump, fráfarandi forseti, hefur krafist þess á undanförnum dögum. 

Græddi ekkert og reitti alla til reiði

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, undirritaði frumvarp um neyðaraðstoð handa Bandaríkjamönnum og fyrirtækjum vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar í nótt. Hann hafði áður neitað að undirrita frumvarpið, sem snýr einnig að fjárveitingum til reksturs alríkisstofnanna, og krafðist þess að dregið yrði úr kostnaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×