Íslenski boltinn

Á­nægð með að fara á lán til Sví­þjóðar fyrst og stefnir á að vera best í heimi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane í sínum fyrsta A-landsleik. Hún skoraði tvö mörk í 9-0 sigri.
Sveindís Jane í sínum fyrsta A-landsleik. Hún skoraði tvö mörk í 9-0 sigri. Vísir/Vilhelm

Í gær var staðfest að Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hafi samið við Þýskalandsmeistara Wolfsburg. Hún verður þó lánuð til Svíþjóðar fyrst þar sem hún mun leika með Íslendingaliði Kristianstad.

Hin 19 ára gamla Sveindís Jane lék á alls oddi með Íslandsmeisturum Breiðabliks síðasta sumar en þar var hún í láni frá uppeldisfélagi sínu Keflavíka. Hún endaði tímabilið hér heima sem Íslandsmeistari, markahæst í Pepsi Max-deild kvenna með 14 mörk og var á endanum valin leikmaður ársins. Þá lék hún sína fyrstu A-landsleiki og skoraði sín fyrstu mörk.

Í gær var staðfest að Sveindís Jane væri á lið til Þýskalandsmeistara Wolfsburg en félagið hefur unnið bæði deild og bikar undanfarin fjögur ár. Þá fór liðið alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð þar sem það beið lægri hlut gegn Lyon, 3-1.

Hún samdi við Wolfsburg til fjögurra ára.

Sveindís er spennt fyrir skrefinu og sátt með að fara til Íslendingaliðs Kristianstad í Svíþjóð fyrst um sinn. Liðið endaði í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og leikur því í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari liðsins og varnarjaxlinn Sif Atladóttir leikur einnig með liðinu.

„Mjög góð, eiginlega bara geggjuð. Ég er eiginlega ekki sjálf að trúa þessu en þetta er raunveruleikinn. Ég var búin að tala við önnur lið og svo kom þetta frekar óvænt svo ég gat ekki sleppt þessu,“ sagði Sveindís Jane um tilfinninguna sem fylgir því að hafa samið eitt besta lið í heimi í viðtali við Pál Ketilsson hjá Víkurfréttum. Viðtalið birtist í Sportpakka Stöðvar 2 í gær og má sjá hér að neðan.

„Ég er mjög spennt. Þekki ágætlega til hennar og hún er frábær þjálfari,“ sagði Sveindís Jane að lokum varðandi hvernig það væri að fara á láni til Kristianstad.

Í viðtali við Fótbolti.net var Sveindís Jane svo spurð út í langtímamarkmið sín.

„Ég ætla að verða besti leikmaður í heimi. Það er markmiðið mitt. Núna fæ ég að spila með bestu leikmönnunum og það er langtímamarkmiðið.“


Tengdar fréttir

Wolfsburg kaupir Sveindísi

Þýskalandsmeistarar Wolfsburg hafa keypt landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur frá Keflavík. Hún verður lánuð til Kristianstad í Svíþjóð á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×