Innlent

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2020

Atli Ísleifsson skrifar
Í hópi þeirra sem létust á árinu 2020 eru einhver ástsælasti söngvari þjóðarinnar, einhver vinsælasti skemmtikraftur landsins og frumkvöðull á sviði líkamsræktar hér á landi.
Í hópi þeirra sem létust á árinu 2020 eru einhver ástsælasti söngvari þjóðarinnar, einhver vinsælasti skemmtikraftur landsins og frumkvöðull á sviði líkamsræktar hér á landi. Vísir/Vilhelm

Fjöldi þjóðþekktra Íslendingar kvaddi á árinu sem senn er á enda. Í hópi þeirra eru meðal annarra einhver ástsælasti söngvari þjóðarinnar, einhver vinsælasti skemmtikraftur landsins, frumkvöðull á sviði líkamsræktar á Íslandi, fyrrverandi ráðherrar og höfundur bókanna um Maxímús Músíkús. Þá þögnuðu einhverjar af þekktustu útvarpsröddum landsins.

Vísir tók saman nokkur nöfn sem Íslendingum ættu að vera kunnug, en þegar hefur birst frétt um fræga einstaklinga úti í heimi sem féllu frá á árinu.

Úr heimi stjórnmála

Alfreð Þorsteinsson , fyrrverandi borgarfulltrúi og stjórnarformaður Orkuveitunnar, lést í maí, 76 ára að aldri. Alfreð var lengi virkur í starfi Framsóknarflokksins og var borgarfulltrúi á árunum 1971 til 1978 og aftur árið 1994 til ársins 2006. Hann var lengi stjórnarformaður í veitustofnana borgarinnar og virkur í starfi Fram.

Kjartan Jóhannsson , fyrrverandi þingmaður, ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra, lést í nóvember, áttræður að aldri. Hann var þingmaður Reyknesinga fyrir Alþýðuflokkinn á árunum 1978 til 1989 og sjávarútvegsráðherra á árunum 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra á árunum 1979 til 1980. Þá var hann forseti neðri deildar þingsins 1988 til 1989. Hann gegndi stöðu sendiherra um margra ára skeið og stöðu framkvæmdastjóra EFTA á árunum 1994 til 2000.

Páll Pétursson.Alþingi

Páll Pét­urs­son , bóndi á Höllu­stöðum, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra, lést í nóvember, 83 ára að aldri. Páll tók sæti á þingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1974 og gegndi þingmennsku til ársins 2003. Hann var þingmaður Norðurlands vestra og gegndi embætti félagsmálaráðherra árin 1995 til 2003. Þá var hann þingflokksformaður Framsóknarflokksins á árunum 1980 til 1994 og forseti Norðurlandaráðs í tvígang.

Menning og listir

Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir söngkona, betur þekkt sem Adda Örnólfs, lést í september, 85 ára að aldri. Adda var ein vinsælasta söngkona þjóðarinnar á árum áður og söng eftirminnileg lög á plötur, eins og Bella símamær, Nótt í Atla­vík og Bjarni og nikkan.

Axel P.J. Einarsson tónlistarmaður lést í september,. 72 ára að aldri Axel spilaði meðal annars í hljómsveitunum Icecross og Deildarbungubræðrum. Hans þekktasta lag er án efa „Hjálpum þeim“ sem kom út árið 1985 til að safna fé vegna hungursneyðar í Eþíópíu.

Bryndís Pétursdóttir leikkona lést í september, 91 árs að aldri. Bryndís starfaði lengi í Þjóðleikhúsinu, en kom einnig fram í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Þannig fór hún með aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Gísli Rúnar Jónsson, leikari, leikstjóri, handritshöfundur og þúsundþjalasmiður, lést í júlí 67 ára að aldri. Gísli var og er enn tíður gestur í stofum og á sjónvarpsskjám landsmanna. Hann lék meðal annars í kvikmyndinni Stella í orlofi og skrifaði og leikstýrði Heilsubælinu og þáttunum Fastir liðir eins og venjulega. Þá fór hann með annað hlutverk Kaffibrúsakarlanna með Júlíusi Brjánssyni.

Halldóra Kristín Thoroddsen rithöfundur lést í júlí, sjötug að aldri. Halldóra ritaði á ferli sínum fjölda ljóðabóka, smásagna og skáldsagna. Hún hlaut fjölda verðlauna fyrir skrif sín, meðal annars Fjöruverðlaunin fyrir bókina Tvöfalt gler árið 2016 og verðlaun Evrópusambandsins fyrir sömu bók ári síðar.

Hallfríður Ólafsdóttir , tónlistarmaður og höfundur bókanna um Maxímús Músíkus, lést í september, 56 ára að aldri. Hún var leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í rúma tvo áratugi og var á ferli sínum meðal annars sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2014 og í apríl 2019 var henni veitt Heiðursviðurkenning Útflutningsverðlauna forseta Íslands fyrir einstakt framlag til að auka hróður Íslands á erlendri grund.

Hallfríður Ólafsdóttir.

Hörður Bergmann, kennari og rithöfundur, lést í október, 87 ára að aldri. Eftir hann liggur margt um mennta- og þjóðmál, meðal annars þrjár bækur um þróun þjóðfélags og lífshátta.

Pétur Bjarnason myndhöggvari lést í október, 65 ára að aldri. Eftir Pétur liggja fjölmörg málmlistaverk þar á meðal Farið við Pollinn á Akureyri og Partnership við Sæbraut í Reykjavík og í Flórída.

Ragnar Bjarnason , Raggi Bjarna, lést í febrúar, 85 ára að aldri. Þessi eilífðartöffari var einn dáðasti söngvari þjóðarinnar og spannaði tónlistarferill hans einhver sjötíu ár. Ragnar kom víða við á löngum tónlistarferli. Hann söng meðal annars með Hljómsveit Svavars Gests og varð svo söngvari hjá KK sextettinum. Síðar gekk hann til liðs við hljómsveit Björns R. Einarssonar en stoppaði þar stutt og var kominn í Hljómsveit Svavars Gests árið 1960.

Sigurður Árnason, Siggi Árna, tónlistarmaður og kerfisfræðingur, lést í febrúar, 72 ára að aldri. Á tónlistarárum sínum spilaði Siggi Árna meðal annars með sveitinni Náttúru. Þá var hann upptökustjóri á fyrstu plötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús.

Soffía Kristín Karlsdóttir , leikkona og söngkona, lést í september, 92 ára að aldri. Soffía var þekkt revíusöngkona um miðja síðustu öld og lagið „Það er draumur að vera með dáta“ skaut henni upp á stjörnuhimininn árið 1954.

Vilhjálmur Knudsen kvikmyndagerðarmaður lést í maí, 76 ára að aldri. Meðal merkustu verka Vilhjálms var myndin Eldur í Heimaey sem hann gerði með föður sínum, en Vilhjálmur átti eftir að festa fjölda eldsumbrota á filmu. Hann hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2012.

Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi lést í október, níræður að aldri. Örlygur stofnaði ásamt svila sínum, Erni Marinóssyni, bókaútgáfuna Örn & Örlyg árið 1966, sem starfrækt var til 1994.

Skólar og vísindi

Dóra S. Bjarnason , prófessor emerita við Háskóla Íslands, lést í ágúst, 73 ára að aldri. Dóra vann lengi að rannsóknum á sviði rannsókna í félagsfræði og fötlunarfræða.

Guðjón Ármann Eyjólfsson, fyrrverandi skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, lést í mars, 84 ára að aldri. Hann var skólameistari Stýrimannaskólans á árunum 1981 til 2003.

Guðrún Margot Ólafsdóttir, fyrrverandi dósent í landafræði, lést í ágúst, níræð að aldri. Guðrún var kennari við Kennaraskóla Íslands þar til hún hóf störf við Háskóla Íslands árið 1974.

Guðrún Sigmundsdóttir , sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum og sýklafræði, lést þann 27. október eftir erfiða baráttu við krabbamein. Hún var 59 ára.

Hjálmar Aðalsteinsson , íþróttakennari, lést í janúar, 65 ára að aldri, eftir snarpa baráttu við krabbamein. Hjálmar starfaði sem íþróttakennari við Hagaskóla í um þrjátíu ár og var auk þess mikil borðtennis- og tenniskempa.

Hrefna Sigvaldadóttir, fyrrverandi skólastjóri Breiðagerðisskóla, lést í janúar, tæplega níræð að aldri. Hún gegndi stöðu skólastjóra frá 1958 til 1996.

Sigurjón Ágúst Fjeldsted, fyrrverandi skólastjóri, lést í maí, 78 ára að aldri. Sigurjón starfaði meðal annars sem skólastjóri Hólabrekkuskóla í Reykjavík á árunum 1974 til 2004, en áður hafði hann til að mynda starfað sem fréttaþulur Ríkissjónvarpsins á árunum 1974 til 1979, og sem borgarfulltrúi á árunum 1982 til 1986.

Viðskipti

Jón H. Bergs , fyrrverandi forstjóri Sláturfélags Suðurlands til margra ára og formaður Vinnuveitendasambands Íslands, lést í apríl, 92 ára að aldri.

Jónína Benediktsdóttir , íþróttafræðingur og frumkvöðull, lést í desember, 63 ára að aldri. Jónína varð snemma áberandi í íslensku þjóðlífi og gerði garðinn frægan fyrst á Íslandi sem frumkvöðull í líkamsrækt.

Þóra Hallgrímsson , eiginkona Björgólfs Guðmundssonar og móðir Björgólfs Thors Bjorgólfssonar, lést í ágúst, níræð að aldri.

Íþróttir, fjölmiðlar og fleira

Alexei Trúfan , fyrrverandi handboltamaður, lést í mars, 61 árs að aldri. Hann kom til Íslands frá Sovétríkjunum árið 1990 og er almennt talinn einn besti varnarmaður sem hefur leikið hér á landi. Hann spilaði með Víkingi, FH, Aftureldingu og Val.

Alma Geirdal lést í september, 41 árs að aldri. Alma hafði háð baráttu við krabbamein eftir að hún greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2017 og verið opinská í baráttu sinni við meinið.

Andrés Indriðason , rithöfundur er frumkvöðull á sviði íslenskrar dagskrárgerðar í sjónvarpi, lést í júlí, 78 ára að aldri.

Auðunn Gestsson , fyrrverandi blaðasali og ljóðskáld, lést í nóvember, tæplega 83 ára að aldri. Auðunn setti sannarlega svip sinn á bæinn, sér í lagi á þeim tíma sem blöð voru seld í lausasölu. Hann var álitinn elsti maður í heimi með Downs-heilkenni.

Gissur Sigurðsson fréttamaður lést í apríl, 72 ára að aldri. Hann starfaði lengi í fjölmiðlum og sagði morgunfréttir á Bylgjunni í aldarfjórðung og voru það ófáir landsmenn sem ólust upp við fréttaflutning Gissurar, sem hann gæddi lífi með hrjúfri og hlýrri rödd, einarðri fróðleiksfýsn og yfirgripsmikilli þekkingu á íslensku samfélagi.

Gylfi Þórhallsson skákmeistari lést í mars, 65 ára að aldri. Gylfi var lengi einn virkasti skákmeistari landsins og forystumaður í félagsmálum skákhreyfingar á Íslandi og þá sér í lagi á Akureyri.

Halldór Grönvold , aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, lést í nóvember. Hann var 66 ára gamall. Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni starfsævi sína eftir að hann lauk námi í vinnumarkaðsfræðum við University of Warwick á Englandi. Hann tók til starfa á skrifstofu ASÍ árið 1993.

Heiðar Ástvaldsson danskennari lést í október, 84 ára gamall. Heiðar starfaði í hálfa öld sem danskennari og rak samnefndan dansskóla, þ.e. Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar.

Heimir Jónasson , markaðsráðgjafi og fyrrverandi dagskrárstjóri Stöðvar 2, lést í apríl, 53 ára að aldri. Heimir starfaði meðal annars sem dagskrárstjóri Stöðvar 2, á markaðsdeild Icelandair, framleiðslustjóri hjá Latabæ, hjá Íslensku auglýsingastofunni og Dale Carnegie og sem framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs. Þá rak Heimir um árabil eigið markaðsfyrirtæki, Icelandic Cowboys.

Jón Ei­ríks­son Drangeyjarjarl lést í nóvember, 91 árs að aldri. Hann bjó á Reykjaströnd í Skagafirði og fór snemma að sækja í Drangey þar sem hann seig í björg eftir eggjum og veiddi fugla. Hann hóf skipulagðar ferðir út í eyna árið 1990.

Jón Valur Jensson guðfræðingur og bloggari lést í janúar, sjötugur að aldri. Jón Valur lét til sín taka með afgerandi hætti í þjóðmálaumræðunni undanfarin árin og var þjóðþekktur sem slíkur.

Karl Berndsen , hárgreiðslu- og förðunarmeistari, lést í janúar, 55 ára að aldri eftir glímu við krabbamein. Karl var landsþekktur meðal annars fyrir sjónvarpsþætti sína.

Kjartan Lárus Pálsson , blaðamaður og fararstjóri, lést áttræður að aldri. Kjartan starfaði meðal annars sem sjómaður, strætisvagna- og leigubílstjóri áður en hann fór í blaðamennsku. Skrifaði hann mikið um íþróttir og starfaði hann meðal annars fyrir Vísi, Tímann og DV.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari lést í september., 56 ára að aldri. Árið 2010 var Kolbrún settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og 2012 var hún skipuð í embættið. Á starfsferli sínum sinnti Kolbrún ýmsum trúnaðarstörfum og kenndi við háskóla.

Kristmann Eiðsson , kennari og þýðandi, lést í október, 84 ára gamall. Kristmann hóf störf við þýðingar hjá Ríkisútvarpinu árið 1967 og starfaði fram á tíunda áratuginn.

Margrét Sigríður Einarsdóttir, fyrrverandi sjúkraliði og forstöðumaður, lést í júlí, 81 árs að aldri. Margrét starfaði á Landakotsspítala þar til að hún tók við stöðu forstöðumanns við þjónustuíbúðir aldraðra á Dalbraut 27 árið 1985. Hún starfaði þar til ársins 2005.

Ólafur E. Friðriksson , fjölmiðlamaður og einn af brautryðjendum fréttastofu Stöðvar 2, lést í september, 66 ára að aldri. Ólafur var í hópi fyrstu fréttamanna Stöðvar 2 haustið 1986 en áður hafði hann starfað sem blaðamaður á DV og fréttamaður á Ríkisútvarpinu.

Salman Tamimi , forstöðumaður Félags múslima á Íslandi, lést í desember, 65 ára að aldri. Hann kom til Íslands 1971, þá 16 ára gamall. Hann menntaði hann sig sem tölvunarfræðingur og vann lengst af hjá Borgarspítalanum, síðar Landspítalanum. Salman stofnaði Félag múslima á Íslandi árið 1997 og var formaður þess til fleiri ára.

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir , fyrrverandi þulur hjá Ríkisútvarpinu, lést í ágúst, 79 ára að aldri. Hún var ein af þekktustu röddum Ríkisútvarpsins og starfaði þar í 44 ár.

Rósa Ingólfsdóttir , sjónvarps- og listakona, lést í janúar, 72 ára að aldri. Rósa setti svip sinn á mannlífið og talaði jafnan tæpitungulaust svo eftir var tekið. Rósa var fyrsti auglýsingateiknari Ríkisútvarpsins og varð síðar sjónvarpsþula. Rósa gaf út ævisöguna Rósumál árið 1992 sem Jónína Leósdóttir skrásetti.

Stjórnsýsla

Ágústa K. Johnson, fyrrverandi deildarstjóri í Seðlabanka Íslands, lést í nóvember, 81 árs að aldri. Ágústa vann hjá Seðlabanka Íslands nær all­an sinn starfs­fer­il eða í tæpa hálfa öld, lengst af sem deild­ar­stjóri skrif­stofu banka­stjóra.

Helgi Hallgrímsson, fyrrverandi vegamálastjóri, lést í október, 87 ára að aldri. Hann tók við embætti vegamálastjóra árið 1992 og gegndi til starfsloka 2003.

Höskuldur Jónsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og forstjóri ÁTVR, lést í mars, 83 ára að aldri. Hann starfaði lengi í fjármálaráðuneytinu og var um tíma ráðuneytisstjóri. Árið 1985 tók hann við stöðu forstjóra ÁTVR og gegndi henni til ársins 2005.

Jakob Björnsson , fyrrverandi orkumálastjóri, lést í febrúar, 93 ára að aldri. Hann gegndi embætti orkumálastjóra á árunum 1973 til 1996.

Jón Birgir Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, lést í ágúst, 84 ára að aldri. Hann gegndi embætti ráðuneytisstjóra frá 1994 til 2003.

Páll Sigurðsson, læknir og fyrrverandi ráðuneytisstjóri, lést í apríl, 94 ára að aldri. Hann var skipaður fyrsti ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins árið 1970 og gegndi því embætti til starfsloka 1995.

Róbert Trausti Árnason , fyrrverandi sendiherra, fréttastjóri og forsetaritari lést í október , 69 ára að aldri.

Sveinn Björnsson , sendiherra og fyrrverandi forsetaritari, er látinn 77 ára að aldri. Hann varð sendiráðsfulltrúi við sendiráð Íslands í París 1968 og starfaði næstu áratugi í utanríkisþjónustunni. Hann varð forsetaritari frú Vigdísar Finnbogadóttur árið 1991 og síðar sendiherra Íslands hjá Evrópuráðinu. Loks varð hann sendiherra Íslands í Vínarborg árið 2004.


Tengdar fréttir

Þau kvöddu á árinu 2020

Fjölmargir þekktir einstaklingar úti í heimi kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda. Í hópi þeirra sem önduðust á árunu eru hinn eini sanni James Bond, bandarískur hæstaréttardómari, einn besti körfuboltamaður sögunnar, einn besti knattspyrnumaður allra tíma, ein skærasta leikkona gullaldar Hollywood, eitt fremsta tónskáld í sögu kvikmyndatónlistar og leikarinn sem fór með titilhlutverkið í Marvel-myndinni Black Panther.

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2018

Margir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda, þar á meðal einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, heimsfrægt tónskáld, fyrrverandi ráðherra og eitt fremsta ljóðskáld þjóðarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×