Innlent

Róbert Trausti látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Róbert Trausti Árnason.
Róbert Trausti Árnason.

Róbert Trausti Árnason, fyrrverandi sendiherra, fréttastjóri og forsetaritari er látinn. Róbert lést á líknardeild Landspítalans þann 23. október síðastliðinn, 69 ára að aldri. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Róbert Trausti fæddist í Reykjavík þann 24. apríl 1951, sonur Önnu Áslaugar Guðmundsdóttur og Árna Guðmundssonar.

Hann lauk stúdentsprófi frá M.R. árið 1973 og BA-prófi frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1979. Hann lauk MA-prófi í stjórnmálafræði frá Queen´s University í Kingston, Kanada, árið 1981.

Róbert Trausti starfaði sem upplýsingafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel í Belgíu á árunum 1981 til 1986. Hann hóf síðan störf í utanríkisráðuneytinu og var skipaður sendiherra árið 1990. Árið 1996 var Róbert Trausti skipaður sendiherra Íslands í Danmörku og gegndi því starfi til ársins 1999 þegar hann tók við embætti forsetaritara. Róbert Trausti lét af því starfi í mars árið 2000 þegar hann varð forstjóri Keflavíkurverktaka.

Róbert var um skeið þulur hjá Ríkisútvarpinu og síðar meir fréttastjóri á Hringbraut. Þá vann hann í níu ár hjá Samtökum atvinnulífsins sem verkefnastjóri Evrópumála.

Róbert Trausti var sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar árið 1996.

Eftirlifandi eiginkona Róberts Trausta er Klara Hilmarsdóttir guðfræðingur.

Útför Róberts Trausta verður frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 9. nóvember kl. 13. Aðeins nánustu aðstandendur verða viðstaddir en streymt verður frá athöfninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×