Innlent

Soffía Karlsdóttir látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Soffía í útsendingu Ríkissjónvarpsins að syngja Það er draumur að vera með dáta.
Soffía í útsendingu Ríkissjónvarpsins að syngja Það er draumur að vera með dáta. Skjáskot

Soffía Kristín Karlsdóttir, leikkona og söngkona, er látin. Soffía lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann 5. september síðastliðinn 92 ára að aldri. Soffía var þekkt revíusöngkona um miðja síðustu öld og lagið „Það er draumur að vera með dáta“ skaut henni upp á stjörnuhimininn árið 1954. Greint er frá andláti hennar í Morgunblaðinu í dag.

Soffía ólst upp á Skagaströnd og Akranesi en fluttist til Reykjavíkur að loknu gagnfræðinámi og fór í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar. Hún tók þátt í revíunni „Allt er fertugum fært“ eftir Theodór Einarsson sautján ára gömul en revían var sett upp á Akranesi.

„Það er draumur að vera með dáta“, úr revíunni „Hver maður sinn skammt“, var lagið sem vakti mesta athygli en einnig má nefna Bílavísur og Réttarsamba.

Að neðan má sjá Soffíu syngja sitt þekktasta lag fyrir fullum sal í Ríkissjónvarpinu.

Soffía settist að í Keflavík þar sem hún varð virk í félagsstarfi, var formaður Leikfélags Keflavíkur um árabil og stóð fyrir leiksýningum í Ungó, Stapanum og Félagsbíó. Þá var hún formaður Kvenfélags Keflavíkur og formaður Sjálfstæðiskvenna í bænum. Þá var hún virk í félögum Lionessa og Soroptomista.

Eftirlifandi eiginmaður Soffíu er Jón Halldór Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri. Þau eignuðust tíu börn og eru afkomendur orðnir 82 talsins.

Notendur Spotify geta hlustað á nokkur af vinsælustu lögum Soffíu hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×