Innlent

Ragnar Bjarnason látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Bjarnason skemmti mörgum Íslendingnum á löngum ferli. Íbúar á dvalarheimilinu Höfða nutu hans árið 2010 þegar þessi mynd var tekin.
Ragnar Bjarnason skemmti mörgum Íslendingnum á löngum ferli. Íbúar á dvalarheimilinu Höfða nutu hans árið 2010 þegar þessi mynd var tekin. Höfði

Ragnar Bjarnason söngvari er látinn 85 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gærkvöldi. Ragnar var einn dáðasti söngvari okkar Íslendinga.

Ragnar fæddist í Reykjavík sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur sem voru bæði mikið tónlistarfólk. Móðir hans var ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins og söng með Dómkirkjukórnum í marga áratugi. Faðir hans var hljómsveitarstjóri og hljómsveit hans sem bar nafn hans var landsfræg á sínum tíma.

Sjá einnig: Eilífðartöffari kveður sviðið

Ragnar hóf ekki tónlistarferil sinn sem söngvari, heldur sem trommuleikari, en þegar hann var 16 ára söng hann ásamt Sigurði Ólafssyni inn á lakkplötu tvö lög sem komu út áratugum seinna á safndiski í tilefni 75 ára afmælis hans.

Rætt var við Ragnar í Íslandi í dag í tilefni af 80 ára afmælinu á sínum tíma árið 2014.

Ragnar kom víða við á löngum ferli. Hann söng með Hljómsveit Svavars Gests og varð svo söngvari hjá KK sextettinum. Síðar gekk hann til liðs við hljómsveit Björns R. Einarssonar en stoppaði þar stutt og var kominn í Hljómsveit Svavars Gests árið 1960.

Ragnar starfaði erlendis í nokkur ár en gekk svo aftur til liðs við hljómsveit Svavars áður en hann stofnaði sína eigin hljómsveit. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar spilaði í 19 ár á Hótel Sögu.

Árið 1972 stofnaði Ragnar ásamt fleirum Sumargleðina og fór hún um landið þvert og endilangt árum saman og naut mikilla vinsælda.

Ragnar, sem alla jafna var kallaður Raggi Bjarna, hélt síðustu stórtónleika sína í Hörpu í september.

Ragnar lætur eftir sig eiginkonu sína Helle Birt­he Bjarna­son. Börn Ragn­ars eru Bjarni Ómar Ragn­ars­son, Kristjana Ragn­ars­dótt­ir og Henry Lár­us Ragn­ars­son.


Tengdar fréttir

Forsetinn um Ragnar Bjarnason: Þú ert snillingur

Ólafur Ragnar Grímsson kom Ragnari Bjarnasyni söngvara og gestum á afmælistónleikum hans í Hörpu skemmtilega á óvart þegar hann birtist á breiðtjaldi á tónleikunum og las kveðju fyrir afmælisbarnið. Ragnar, eða Raggi Bjarna eins og hann er nú oftast kallaður, var að fagna áttræðisafmælinu sínu.

Raggi Bjarna er ekki að hætta áttræður

Tónlistarmaðurinn Ragnar Bjarnason fagnar áttræðisafmæli sínu í dag. Hann segist ekki tilbúinn að hætta í tónlistinni, enda líði honum best þar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.