Innlent

Salman Tamimi er látinn

Jakob Bjarnar skrifar
Salman Tamimi var áberandi í þjóðlífinu og lét ekki sitt eftir liggja í umræðunni. Fjölskylda hans og múslimasamfélagið á Íslandi syrgir nú forstöðumann sinn.
Salman Tamimi var áberandi í þjóðlífinu og lét ekki sitt eftir liggja í umræðunni. Fjölskylda hans og múslimasamfélagið á Íslandi syrgir nú forstöðumann sinn. Félag Múslima á Íslandi

Salman Tamimi lést í gær 65 ára gamall. Hann er forstöðumaður Félags múslima á Íslandi.

Félag Múslima á Íslandi greindi frá andláti Salman Tamimi nú í morgun á Facebooksíðu sinni. Þar segir:

„Í gærkvöldi lést forstöðumaður Félags múslima á Íslandi, Salman Tamimi. Þessa manns verður sárt saknað. Við viljum minna fólk á að bera virðingu fyrir aðstæðum sem fjölskylda hans er í og fara ekki heim til hans og hringja i fjölskyldumeðlimi stanslaust. Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður háttsettur í paradís.“

Salman Tamimi fæddist 1. mars árið 1955 í Jerúsalem, Palestínu. Hann kom til Íslands 1971, þá 16 ára gamall.

Hann var á sjó og í byggingarvinnu í fyrstu en á seinni árum menntaði hann sig sem tölvunarfræðingur og vann lengst af hjá Borgarspítalanum, síðar Landspítalanum.

Salman stofnaði Félag múslima á Íslandi árið 1997 og var formaður þess til fleiri ára. Hann var einnig stofnfélagi í Félaginu Ísland-Palestína og var ötull talsmaður réttinda Palestínumanna ásamt því að láta sig varða mannréttindi um víðan heim.

Eftirlifandi eiginkona hans er Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir. Hann lætur eftir sig 5 uppkomin börn, fósturson og 12 barnabörn ásamt stórri fjölskyldu í Palestínu og á Íslandi.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Salmans segir að hann hafi verið mikill fjölskyldumaður, vinamargur og hans verði sárt saknað. Salman hafi látist á friðsælan hátt í faðmi fjölskyldu sinnar.

Salman kom oft fram í viðtölum fyrir hönd múslima á Íslandi, meðal annars ítarlega í útvarpsþættinum Harmageddon sem sjá má að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.