Manchester City vann öruggan 4-1 sigur á Arsenal í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld er liðin mættust á Emirates í Lundúnum.
Það tók gestina ekki langan tíma að taka forystuna en Gabriel Jesus stangaði þá fyrirgjöf Oleksandr Zinchenko í netið af stuttu færi. Hefði Rúnar Alex Rúnarsson eflaust átt að gera betur þar en hann bjargaði Arsenal meistaralega síðar í fyrri hálfleik er hann varði frá Jesus þegar Brasinn var einn gegn markverði.
Alexandre Lacazette jafnaði metin fyrir Arsenal þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum og var staðan 1-1 í hálfleik.
Hope that great save helps to settle Alex Runarsson down #COYG #safehands
— David Seaman (@thedavidseaman) December 22, 2020
Riyad Mahrez kom gestunum yfir með marki úr aukaspyrnu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Skotið var beint á Rúnar Alex en landsliðsmarkvörðurinn virtist misreikna flugið á boltanum og tókst á einhvern hátt að missa knöttinn úr höndunum og í netið.
Einkar klaufalegt í alla staði og aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 3-1 þegar Phil Foden lyfti knettinum snyrtilega yfir Rúnar Alex eftir sendingu Fernardinho. Foden virtist vera fyrir innan en engin myndbandsdómgæsla er í deildabikarnum.
Það var svo Aymeric Laporte sem tryggði 4-1 sigur City með skalla af stuttu færi á 73. mínútu. Átti Foden þá fyrirgjöf og Laporte gat ekki annað en skorað. Lokatölur 4-1 og meistarar City líklegir til að landa sigri í deildabikarnum enn á ný.