City fór létt með Arsenal | Skelfi­leg mis­tök Rúnars Alex

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Phil Foden skoraði þriðja mark Arsenal en sá enski var að öllum líkindum fyrir innan.
Phil Foden skoraði þriðja mark Arsenal en sá enski var að öllum líkindum fyrir innan. VísirGetty Images

Manchester City vann öruggan 4-1 sigur á Arsenal í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld er liðin mættust á Emirates í Lundúnum.

Það tók gestina ekki langan tíma að taka forystuna en Gabriel Jesus stangaði þá fyrirgjöf Oleksandr Zinchenko í netið af stuttu færi. Hefði Rúnar Alex Rúnarsson eflaust átt að gera betur þar en hann bjargaði Arsenal meistaralega síðar í fyrri hálfleik er hann varði frá Jesus þegar Brasinn var einn gegn markverði.

Alexandre Lacazette jafnaði metin fyrir Arsenal þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum og var staðan 1-1 í hálfleik.

Riyad Mahrez kom gestunum yfir með marki úr aukaspyrnu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Skotið var beint á Rúnar Alex en landsliðsmarkvörðurinn virtist misreikna flugið á boltanum og tókst á einhvern hátt að missa knöttinn úr höndunum og í netið.

Einkar klaufalegt í alla staði og aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 3-1 þegar Phil Foden lyfti knettinum snyrtilega yfir Rúnar Alex eftir sendingu Fernardinho. Foden virtist vera fyrir innan en engin myndbandsdómgæsla er í deildabikarnum.

Það var svo Aymeric Laporte sem tryggði 4-1 sigur City með skalla af stuttu færi á 73. mínútu. Átti Foden þá fyrirgjöf og Laporte gat ekki annað en skorað. Lokatölur 4-1 og meistarar City líklegir til að landa sigri í deildabikarnum enn á ný.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.