Erlent

Missti föður sinn úr Alzheimer og blæs til stórsóknar gegn sjúkdómnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bill segir gagnasöfnun og deilingu gagna geta skipt sköpum í baráttunni gegn sjúkdómum.
Bill segir gagnasöfnun og deilingu gagna geta skipt sköpum í baráttunni gegn sjúkdómum. epa/Gian Ehrenzeller

Athafnamaðurinn og mannvinurinn Bill Gates missti föður sinn úr Alzheimer fyrir tveimur mánuðum og segist ekki óska neinum þeirrar lífsreynslu. Í dag greindi hann frá nýjum samstarfsvettvangi fyrir vísindamenn sem starfa að Alzheimer-rannsóknum en hann segir upplýsinga- og gagnamiðlun mögulega eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn sjúkdómum.

„Fjölskyldan mín elskar að púsla. Það er eitt það skemmtilegasta sem við gerum saman, sérstaklega þegar við erum í fríi. Það er eitthvað svo gefandi við að vinna í teymi og leggja niður bita eftir bita þar til púslið er klárað,“ segir Gates í pistli á GatesNotes.com.

Á marga vegu minnir baráttan við Alzheimer á púsl, bætir hann við. 

„Markmiðið er að sjá heildarmyndina, svo þú öðlist nægan skilning á sjúkdómnum til að greina hann og meðhöndla.“

Tregðan við að deila niðurstöðum hamlar framþróun

Gates bendir á að um heim allan séu vísindamenn að keppast við að læra meira um Alzheimer og leita leiða til að hægja eða stöðva framgang sjúkdómsins. Aðrir vinni að rannsóknum á heilanum, hvernig hann virkar og hvað gerist þegar við eldumst.

Hingað til hafi hins vegar tregðan við að deila niðurstöðum og upplýsingum hægt á vinnunni. Þess vegna hefur Gates, í samstarfi við aðra, unnið í eitt og hálft ár að Alzheimer's Disease Data Initiative (ADDI).

Vettvangurinn verður opinn vísindamönnum út um allan heim og mun sjá þeim fyrir tólum og gögnum til að nota í rannsóknum sínum. Í gagnagrunni ADDI verður m.a. að finna niðurstöður úr lyfjarannsóknum og upplýsingar um sjúklinga sem tekið hafa þátt í Alzheimer-rannsóknum.

Að sögn Gates verður tryggt að allar upplýsingar í grunninum uppfylli kröfur um persónuvernd.

Hefur þegar verið notaður gegn Covid-19

„Ég er bjarsýnn á að þetta muni skipta sköpum í rannsóknum á Alzheimer, af því að þess eru mörg dæmi að árangur hafi náðst í baráttunni gegn sjúkdómum með söfnun gagna,“ segir Gates.

Nefnir hann t.d. rannsóknir á vannæringu barna í Afríku.

ADDI fer í loftið seinna í mánuðinum en grunnurinn að samstarfsvettvanginum hefur nú þegar verið notaður í baráttunni gegn öðrum sjúkdóm; Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×