Erlent

Herða sótt­varna­að­gerðir í New York til að koma í veg fyrir aðra meiri­háttar bylgju

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Telma Tómasson skrifa
Myndin er tekin á Times Square í New York fyrir nokkrum dögum en torgið iðar vanalega iðar af lífi en nú er enda einn helsti ferðamannastaður borgarinnar.
Myndin er tekin á Times Square í New York fyrir nokkrum dögum en torgið iðar vanalega iðar af lífi en nú er enda einn helsti ferðamannastaður borgarinnar. Getty/Noam Galai

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, hefur hert sóttvarnaaðgerðir í borginni með það að markmiði að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Blasio segir að aðgerðirnar séu síðasta tækifærið til að koma í veg fyrir aðra meiriháttar bylgju farsóttarinnar.

Samkomutakmörkunum hefur verið komið á og mega ekki fleiri en 10 manns koma saman í einu. Þá verður öldurhúsum, veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum gert að loka ekki síðar en klukkan tíu á kvöldin.

Nýju reglurnar taka gildi næstkomandi föstudag. Andrew Cuomo, ríkisstjóri í New York, segir að meðal annars sé ráðist í þessar aðgerðir vegna þess að smitrakning hafi leitt í ljós að fjöldi hópsýkinga hafi komið upp á djamminu í borginni.

Þá sagði Blasio að ef smitum fjölgi áfram með sama hraða og verið hefur undanfarið þyrfti að loka grunnskólum borgarinnar og börn þyrftu þá að sinna náminu heima í gegnum netið.

„Þetta er síðasta tækifæri okkar til þess að stöðva næstu bylgju. Við getum gert það en við verðum að grípa til aðgerða núna,“ sagði Blasio.

Faraldurinn hefur verið í verulegum vexti í Bandaríkjunum síðustu vikur líkt og víða annars staðar í heiminum.

Metfjöldi greindist með veiruna í Bandaríkjunum í gær, eða rúmlega 144 þúsund manns, og þá voru rúmlega 65 þúsund manns inniliggjandi á sjúkrahúsum með Covid-19.

Á rúmri viku hafa meira en 100 þúsund manns greinst smitaðir daglega í Bandaríkjunum sem sérfræðingar segja að sé hærra hlutfall en í fyrstu bylgjunni í vor og sumarbyrjun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×