Erlent

Trump lýsti yfir sigri þótt úrslit séu hvergi nærri ráðin

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir sigri í kosningunum í nótt þegar hann steig á svið með Mike Pence, varaforseta. Forsetinn byrjaði á léttum nótum með því að segjast aldrei hafa haldið blaðamannafund svona seint.

Trump hélt því næst ranglega fram að til stæði að stela af honum kosningasigri. Þær staðhæfingar halda ekki vatni, hvorki er rétt að hann hafi unnið kosningarnar né að verið sé að stela af honum kosningunum.

Þó forsetinn væri sigurreifur virtist hann reiður á köflum og krafðist þess að atkvæðagreiðslu yrði nú hætt. Þó er það svo að hvergi er enn verið að greiða atkvæði. Talning stendur yfir en Trump sagði að nú væri verið að reyna að hafa af honum sigurinn án þess að færa nokkur rök fyrir þeim orðum sínum.

Í Pennsylvaníu á til að mynda eftir að telja um 1,4 milljón atkvæði, hið minnsta. Þar er að að mestu um að ræða póstatkvæði en fastlega er gert ráð fyrir því að Biden hafi hlotið fleiri slík en Trump.

Alvanalegt er að atkvæði séu talin eftir kosninganótt. Í sumum ríkjum er ekki hægt að staðfesta niðurstöður kosninga endanlega fyrr en nokkrum dögum, jafnvel vikum, eftir kjördag.

Sjá einnig: Vara við „Rauðri hillingu“ á kjördag

Trump staðhæfði að hann hafi sigrað í Georgíu, sem er ekki rétt. Þar er enn verið að telja atkvæði og er mjótt á munum.

Trump sagðist einnig vera að vinna í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Þó er það svo að ekki er enn hægt að segja til um með nokkurri vissu hver hafði sigur í þessum fjórum fylkjum og er enn verið að telja þar atkvæði.

Sjá einnig: Enn enginn sigurvegari og Biden þarf að treysta á „bláa vegginn“

Forsetinn lauk máli sínu á því að segja kosningarnar skammarlegar fyrir Bandaríkin og að verið væri að svindla á fólkinu. 

Því næst lýsti hann yfir sigri og sagði að hann myndi leita til Hæstaréttar Bandaríkjanna og fara fram á það að talningu atkvæða yrði hætt.

Hér að neðan má sjá vakt Vísis þar sem fylgst var með þróun mála í alla nótt.


Tengdar fréttir

Vaktin: Örlagadagur í Bandaríkjunum

Bandaríkjamenn hafa gengið að kjörborðinu og greitt atkvæði sín. Enn er þó óljóst hvort Repúblikaninn og sitjandi forsetinn Donald Trump mun halda embættinu eða Demókratanum og fyrrverandi varaforsetanum Joe Biden takist að snúa aftur á kunnuglegar slóðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×