Nú liggur fyrir hvernig íbúar í Dixville Notch í New Hampshire greiddu atkvæði í bandarísku forsetakosningunum sem fram fara í dag. Bærinn hefur lengi stært sig af því að vera fyrstur til að loka kjörstað og kynna niðurstöðuna, en einungis eru þar nú fimm manns á kjörskrá.
Óhætt er að segja að um sannkallað vígi sé að ræða fyrir Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, að þessu sinni en allir fimm sem voru á kjörskrá kusu Biden.

Kjörstaður Dixville Notch, sem er að finna við landamærin að Kanada, opnaði og lokaði um miðnætti að staðartíma og hófst í kjölfarið talning atkvæða. Sú talning tók ekki langan tíma og voru niðurstöðurnar svo kynntar.
Sökum þessarar hefðar þorpsins, sem nær aftur til ársins 1960, eru fjölmiðlamenn tíðir gestir þar á kjördegi.
Í síðustu forsetakosningum, árið 2016, hlaut Hillary Clinton fjögur atkvæði í Dixville Notch, Donald Trump tvö og Gary Johnson eitt. Þá var einhver sem ritaði nafn Mitt Romney á kjörseðilinn. Það er því ljóst að niðurstaðan í Dixville Notch gefur ekki endilega fyrirheit um sjálfar niðurstöður kosninganna.