Veður

Gular við­varanir í gildi og rysj­ótt veður næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi á landinu austanverðu.
Gular viðvaranir eru í gildi á landinu austanverðu. Veðurstofan

Gular veðurviðvaranir eru nú í gildi á Austurlandi að Glettingi, á Austfjörðum og á Suðausturlandi auk Miðhálendisins og verða þær í gildi flestar fram eftir degi.

Önnur slík viðvörun tekur svo gildi á Norðurlandi eystra núna klukkan átta þar sem spáð er norðvestan hríð með slyddu eða snjókomu og blint verður á fjallvegum. Þar getur færð spillst rétt eins og annarsstaðar á þeim svæðum þar sem vetur konungur hefur látið á sér kræla.

Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni segir að vestantil á landinu sé hins vegar mun hægari og það muni létta til á á Suður- og Vesturlandi í dag. Seinni partinn stytti upp fyrir norðan og austan. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.

Þá er spáð rysjóttu veðri næstu daga, þar sem suðvestanáttin fer vaxandi og fer að rigna í nótt, víða 15-23 m/s á morgun en heldur hægari suðvestanlands. Það hlýnar talsvert og ekki ólíklegt að hiti nái 15 stigum á Austfjörðum, segir ennfremur.

Spákortið fyrir hádegið í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Gengur í suðvestan hvassviðri eða storm, en heldur hægari suðvestantil. Rigning, einkum S- og V-lands, en dregur úr úrkomu síðdegis. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast á Austfjörðum.

Á fimmtudag: Suðvestan hvassviðri eða stormur og rigning, en úrkomulítið um landið NA-vert. Hiti 6 til 12 stig.

Á föstudag: Minnkandi suðvestanátt og skúrir eða él, en léttskýjað A-til. Kólnandi veður.

Á laugardag: Suðvestanátt og dálítil él, en léttskýjað um landið A-vert. Hiti 0 til 4 stig, en vægt frost í innsveitum.

Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir suðlæga átt með dálítilli vætu S- og V-lands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×