Enski boltinn

David Alaba orðaður við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Alaba með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Bayern München í úrslitaleiknum í ágúst.
David Alaba með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Bayern München í úrslitaleiknum í ágúst. Getty/M. Donato

Fréttirnar af Liverpool þessa dagana snúast aðallega hvernig knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp ætlar að leysa það að Virgil van Dijk er með slitið krossband og verður ekkert meira með á leiktíðinni. Meiðsli Fabinho í síðasta leik hafa aðeins aukið pressuna á að auka breiddina í miðvarðarstöðunum.

Liverpool vantar reynslumikinn miðvörð til að hjálpa liðinu í gegnum þetta tímabil og ekki er slæmt ef sá leikmaður getur leyst fleiri en eina stöðu á vellinum.

David Alaba hjá Bayern München er einmitt leikmaður sem Liverpool er sagt hafa áhuga á og líkurnar á því að ná í kappann jukust eftir að fréttist af því að það hefði slitnað upp úr samningaviðræðum leikmannsins og Bayern München.

Bild slær því upp að ekkert gangi hjá Bæjurum að semja við Svisslendinginn.

Samningur David Alaba rennur út næsta sumar en hann skrifaði undir fimm ára framlengingu í mars 2016. Alaba hefur verið hjá Bayern frá því sumarið 2010 eða í meira en áratug. Hann er núna 28 ára gamall.

David Alaba gæti því yfirgefið Bayern í sumar á frjálsri sölu og því væri freistandi fyrir þýsku Evrópumeistarana að reyna að fá eitthvað fyrir hann í janúarglugganum.

Það þykir líklegt að Liverpool nýti sér þetta dauðafæri því David Alaba er á óskalista félagsins samkvæmt heimildum Football Insider.

Liverpool keypti Thiago af Bayern í haust og hver veit nema að það verði komnir tveir Evrópumeistarar í Liverpool liðið í janúar.

David Alaba hefur spilað næstum því 400 leiki fyrir Bayern München en hann hefur unnið þýsku deildina níu sinnum og vann Meistaradeildina í annað skiptið í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×