Erlent

Krefst af­sagnar heil­brigðis­ráð­herrans í kjöl­far grímu­hneykslis

Atli Ísleifsson skrifar
Roman Prymula er faraldursfræðingur sem leitað til forsætisráðherrans fyrir um mánuði og boðið fram aðstoð sína í baráttu stjórnvalda gegn faraldrinum. Hann var þá gerður að heilbrigðisráðherra.
Roman Prymula er faraldursfræðingur sem leitað til forsætisráðherrans fyrir um mánuði og boðið fram aðstoð sína í baráttu stjórnvalda gegn faraldrinum. Hann var þá gerður að heilbrigðisráðherra. EPA

Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, hefur krafist afsagnar heilbrigðisráðherra landsins eftir að myndir náðust af ráðherranum án grímu þar sem hann gerðist brotlegur við sóttvarnareglur.

Málið hefur vakið upp mikla reiði í Tékklandi sem glímir nú við gríðarlega útbreiðslu kórónuveirunnar – þá mestu í álfunni sem hefur valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfið.

Babis sagði að heilbrigðisráðherrann Roman Prymula yrði rekinn úr ríkisstjórn, færi svo að hann myndi ekki hætta af sjálfsdáðum. Hann sagði hegðun Prymula, sem tók við embætti heilbrigðisráðherra fyrir mánuði, vera óafsakanlega. „Við getum ekki prédikað vatn en drukkið vín,“ sagði forsætisráðherrann.

Hneykslismálið kom upp fyrr í dag þegar myndir af Prymula voru birtar í fjölmiðlum þar sem mátti sjá hann yfirgefa veitingastað og setjast upp í bíl án þess að nota grímu. Er um skýrt brot á gildandi sóttvarnareglum landsins að ræða.

Myndirnar voru birtar á forsíðu blaðsins BLESK.EPA

Prymula hefur sjálfur sagt að hann hafi þarna sótt vinnufund í bakherbergi veitingastaðar sem hafði verið lokað vegna takmarkana stjórnvalda.

Reuters segir frá því að Prymula sé sjálfur faraldursfræðingur sem hafi leitað til Babis fyrir um mánuði og boðið fram aðstoð sína í baráttu stjórnvalda gegn faraldrinum.

Alls greindust rúmlega 14 þúsund manns með kórónuveirusmit í Tékklandi í gær og er það næstmesti fjöldinn á einum degi í landinu frá upphafi faraldursins.

Alls hafa 1.845 manns látist í Tékklandi af völdum Covid-19 frá upphafi faraldursins – þar af 113 á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×