Erlent

Tíu þúsund Þjóðverjar greindust smitaðir í gær og heilbrigðisráðherra var þar á meðal

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Heibrigðisráðherrann Jens Spahn var á meðal þeirra tíu þúsund Þjóðverja sem greindust með Covid-19 í gær.
Heibrigðisráðherrann Jens Spahn var á meðal þeirra tíu þúsund Þjóðverja sem greindust með Covid-19 í gær. Keuenhof - Pool/Getty Images

Staðfest kórónuveirusmit í Þýskalandi í gær voru rúmlega ellefu þúsund talsins og er það í fyrsta sinn sem Þjóðverjar mæla fleiri en tíu þúsund smit á einum degi. Fyrra met var sett fyrir tveimur dögum, þegar smitaðir reyndust 8500. Þjóðverar hafa hingað til komið nokkuð vel út úr faraldrinum í samanburði við önnur Evrópuríki en með haustinu hefur smitum þar þó farið hratt fjölgandi. Á meðal þeirra sem greindust smitaðir í gær var heilbrigðisráðherra landsins, Jens Spahn. 

Í Frakklandi hefur nú ein milljón manna smitast af veirunni og er Frakkland annað landið í Evrópu sem nær svo hárri tölu. Spánn varð fyrsta Evrópulandið sem náði þeim vafasama heiðri.

Í Tékklandi er ástandið einna verst í Evrópu en þar fóru dagleg smit upp undir fimmtán þúsund í gær, sem gríðarlega há tala ef tekið er tillit til þess að Tékkar telja aðeins rúmar tíu milljónir. Þar í landi taka nýjar samkomutakmarkanir gildi í dag.

Í þeim felst að öllum ónauðsynlegum verslunarrekstri skal hætt en til nauðsynlegra verslana teljast matvörubúðir og apótek en einnig,  eins undarlega og það hljómar, blómabúðir, tóbaksverslanir og lásasmiðir. Þá má fólk ekki koma saman í stærri hópum en tveggja manna, að fjölskyldum undanskyldum og er fólk hvatt til að láta af öllum ferðum utanhúss, nema brýna nauðsyn beri til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×