Erlent

Nær öll nöfn þurrkuð út úr framburði Maxwell um Epstein

Kjartan Kjartansson skrifar
Maxwell á mynd með Epstein á veggspjaldi sem bandarískir saksóknarar sýndu þegar þeir lögðu fram ákærur á hendur henni í sumar.
Maxwell á mynd með Epstein á veggspjaldi sem bandarískir saksóknarar sýndu þegar þeir lögðu fram ákærur á hendur henni í sumar. AP/John Minchillo

Búið var að má út nær öll nöfn úr framburði Ghislaine Maxwell, aðstoðarkonu og fyrrverandi kærustu Jeffreys Epstein, þegar hann var gerður opinber í dag. Maxwell hafnaði því að hafa hjálpað Epstein og Andrési Bretaprins að finna hjásvæfur undir lögaldri.

Svæðisdómari í Bandaríkjunum úrskurðaði að birta mætti vitnisburð Maxwell þegar hún var yfirheyrð árið 2016. Hann var gerður opinber í dag en búið var að strika yfir nær öll nöfn nema Epstein og Andrésar prins. Maxwell sótti það fast að koma í veg fyrir að framburður hennar yrði gerður opinber.

Maxwell er ákærð fyrir að hafa hjálpað Epstein að finna og búa ungar stúlkur, allt niður í fjórtán ára gamlar, undir að taka þátt í ólöglegum kynlífsathöfnum sem hún hafi sjálf stundum tekið þátt í. Hún er einnig sökuð um meinsæri í framburði sínum í einkamáli sem kona sem segist hafa verið fórnarlamb Epstein höfðaði gegn henni. Hún neitar sök en hefur verið í varðhaldi frá því í júlí. Epstein svipti sig lífi í fangelsi í New York í fyrra þegar hann var ákærður fyrir mansal og misnotkun.

Hafnaði Maxwell því eiðsvarin fyrir fjórum árum að hafa orðið vitni að „óviðeigandi athöfnum með fólki undir lögaldri“. Sakaði hún Viriginu Giuffre, konuna sem sakaði Epstein um að misnota sig með aðstoð Maxwell þegar hún var táningur, um að ljúga upp á sig.

„Ég hef aldrei nokkurn tímann á nokkurri stundu tekið þátt í neinu með Virginiu og Jeffrey. Svo þess sé getið þá er hún alger fullkominn lygari,“ sagði Maxwell í framburði sínu.

Vék hún sér ítrekað undan því að gefa skýr svör um kynferðisleg athæfi Epstein og samskipti við Giuffre og aðrar ungar konur eða unglinga.

David Boies og Sigrid McCawley, lögmenn Giuffre fögnuðu birtingu framburðar Maxwell í dag og fullyrtu að brátt yrði ljóst hvers vegna hún og aðrir sem hafi liðkað fyrir glæpum Epstein hafi barist svo hart fyrir því að halda framburðinum leyndum, að því er segir í frétt New York Times.


Tengdar fréttir

Vitnisburður Ghislaine Maxwell gerður opinber

Áfrýjunardómstóll í New York-ríki telur almenning eiga rétt á því að vitnisburður Ghislaine Maxell, samverkakonu og fyrrverandi kærustu auðkýfingsins Jeffrey Epstein, verði gerður opinber.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×