Erlent

Sýnataka á smástirni virðist hafa gengið að óskum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hreyfiarmur Osiris-Rex þegar hann snerti yfirborð Bennu í gærkvöldi.
Hreyfiarmur Osiris-Rex þegar hann snerti yfirborð Bennu í gærkvöldi. NASA/AP

Hreyfiarmur bandaríska geimfarsins Osiris-Rex nældi sér í sýni af yfirborði smástirnisins Bennu í gærkvöldi. Aðgerðin virðist hafa gengið að óskum en það gæti tekið allt að tíu daga að skera úr um hversu miklu af ryki og grjóti geimfarinu tókst að safna.

Osiris-Rex smokraði sér upp að yfirborði Bennu í Næturgalagígnum á ellefta tímanum í gærkvöldi að íslenskum tíma. Hreyfiarmur þess þrýsti út köfnunarefnisgasi sem þyrlaði efni upp af yfirborðinu og safnaði því. Alls tók sýnatakan aðeins tíu sekúndur, að sögn Space.com.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA birti myndskeið af arminum þegar hann þyrlaði jarðveginum upp í dag. Bennu og Osiris-Rex eru í um 330 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu, utan við sporbraut jarðarinnar og handan við sólina.

Markmið leiðangursins er að safna að minnsta kosti sextíu grömmum af jarðvegi en vísindamennirnir sem standa að honum telja sig geta náð allt að kílói. Það gæti tekið tíu daga að komast að því hversu miklu Osiris-Rex náði að safna í gær. Ætlunin er að senda sýnin aftur til jarðar með hylki þegar geimfarið flýgur fram hjá jörðinni í september árið 2023.

Þetta var í fyrsta skipti sem bandarískt geimfar nær í sýni frá smástirni úti í sólkerfinu okkar en japönsku geimförin Hayabusa 1 og 2 voru þau fyrstu til að vinna það afrek. Evrópska geimstofnunin ESA lenti lendingarfarini Philae á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko árið 2014.

Talið er að Bennu, sem er aðeins stærra en fjallið Keilir, sé brot úr mun stærra smástirni sem sundraðist fyrir allt að milljarða ári. Þannig er líklegt að í Bennu sé að finna leifar af efni frá árdögum sólkerfisins okkar.

Hafi Osiris-Rex ekki veitt fylli sína af jarðvegi í gær er enn möguleiki á tveimur tilraunum til viðbótar. Hafi allt gengið sem skyldi yfirgefur geimfarið Bennu í mars.


Tengdar fréttir

Grípur sér sýni úr smástirninu Bennu í kvöld

Bandaríska geimfarið Osiris-Rex reynir að grípa bergsýni úr yfirborði smástirnisins Bennu í kvöld að íslenskum tíma. Til stendur að senda sýnið aftur til jarðar og gangi áformin eftir verður það stærsta sýni úr geimnum sem hefur komið til jarðar frá því að Apollógeimfararnir sneru heim frá tunglinu á 8. áratug síðustu aldar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.