Erlent

Madsen var með gervisprengjubelti

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan notaði róbóta til að kanna belti Madsen nánar.
Lögreglan notaði róbóta til að kanna belti Madsen nánar. EPA/Nils Meilvang

Danski morðinginn og uppfinningamaðurinn Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir að reyna að flýja úr fangelsi eftir flóttatilraun hans í dag. Verið er að skoða hvort ákæra eigi hann fyrir að brjóta önnur lög. Meðal annars notaði hann hlut sem leit út eins og byssa og gervisprengibelti en Madsen gekk þó aðeins laus í nokkrar mínútur.

Hann var handtekinn eftir að hann stökk upp í sendiferðabíl. Útlit er fyrir að ökumaður sendiferðabílsins hafi ekki komið að flóttatilraun Madsen með nokkrum hætti. Lögreglunni hefur þó gengið erfiðlega að yfirheyra bílstjórann vegna tungumálaörðugleika.

Fram kom í dag að hinn 49 ára gamli Madsen tók sálfræðing sem gísl og notaði hann og hlut sem leit út fyrir að vera byssa til að komast út. Fangaverðir töldu lífi sálfræðingsins ógnað og hleyptu Madsen því út. Hann gekk þó ekki laus lengi.

Eftir að hann var kominn út, hljóp hann á brott. Myndbandsupptökur sem blaðamenn Ekstrabladet hafa komið höndum yfir sýna Madsen ganga eftir götu og virtist hann ekki vera að flýta sér. Það er þar til einhver sást hlaupa á eftir honum og kallaði sá á hann: „Peter, leggstu niður“.

Þá hljóp Madsen inn á milli tveggja húsa en hann fór vitlausa leið og þurfti að snúa við. Skömmu eftir það stökk hann inn í sendiferðabílinn þar sem hann var handtekinn.

Eftir að Madsen hafði verið handjárnaður sáu lögregluþjónar að hann var með belti sem leit út eins og sprengjubelti. Því hörfuðu þeir og umkringdu Madsen, þar sem hann sat sat í grasi í vegarkanti.

Hér má sjá kort sem sýnir hvar fangelsið er og hvar Madsen var handtekinn. Staðirnir eru merktir rauðum táknum.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að enn sé verið að rannsaka beltið.

Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2018 fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall . Madsen hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit.

Hér má sjá myndband frá Guardian, þar sem rætt er við vegfaranda sem fylgdist með handtöku Madsen.


Tengdar fréttir

Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi

Danski morðinginn Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi í morgun. Ekstra bladet greinir frá þessu í morgun og birtir myndir af Madsen þar sem situr í grasi í vegarkanti í Albertslund, um 400 til 500 metrum frá fangelsinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.