Íslenski boltinn

Guðni: Mjög erfið á­kvörðun og enginn á­berandi góður kostur í stöðunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að ákvörðun KSÍ í dag um að halda áfram með Íslandsmótin í meistaraflokki hafi verið erfið en sambandið setur stefnuna á að klára öll mót fyrir 1. desember.

KSÍ tilkynnti í dag að sambandið ætli að halda öllum mótum meistaraflokka karla og kvenna í öllum deildum áfram svo framarlega sem takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember.

„Við vonumst til að geta haldið áfram eftir 3. nóvember er bráðabirgðaákvæðið reglugerðar ráðherra tekur enda og að þá getum við hafist handa við æfingar og leiki. Markmiðið okkar er að ljúka mótunum í öllum deildum,“ sagði Guðni í samtali við Guðjón Guðmundsson skömmu eftir yfirlýsingu KSÍ.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun. Þarna eru alls konar hagsmunir og þetta er margþætt ákvörðun. Það er við ýmislegt að etja t.d. í aðstöðumálum, veðurfari, heilbrigðismálum. Þetta var stór ákvörðun og tók mikið á.“

Það hafa verið stíf fundarhöld í höfuðstöðvum KSÍ undanfarna daga og Guðni segir að margir, langir fundir hafi átt sér stað í hinum ýmsu nefndum.

„Við höfum fundað mikið og tekið þetta sérstaklega fyrir í mótanefndinni. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við erum búin að ræða þetta fram og til baka og það er áberandi enginn góður kostur í stöðunni en við töldum þetta bestu leiðina fram á við.“

„Að fara eftir þeirri reglugerð sem við settum í sumar; að við myndum gefa okkur til 1. desember til að ljúka mótunum ef möguleiki væri á. Við vonumst eftir að þessum takmörkunum verði afleitt á höfuðborgarsvæðinu og við getum hafið leik og við getum klárað mótið.“

Hann segir að það sé ekki sama uppi á teningnum alls staðar og sambandið sé meðvitað um það en stefnan hafi samt verið sett á að klára mótið.

„Umhverfið er erfitt. Það er erfitt að stöðva æfingar og geta ekki spilað svo vikum skiptir. Það setur mikla pressu á okkur. Það eru alls konar mál sem þarf að eiga við; sérstaklega í landsbyggðinni og neðri deildunum þar sem aðstaðan er kannski ekki alveg jafn góð. Við erum meðvituð um það og þetta hefur verið erfitt.“

Viðtalið í heild sinni má sjá og heyra hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Guðni Bergsson

Tengdar fréttir

KSÍ ætlar að klára Íslandsmótið

Svo lengi sem takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember ætlar KSÍ að klára Íslandsmótið í fótbolta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.