Enski boltinn

Stefnir mögulega í miðvarðarhallæri hjá Liverpool á miðvikudagskvöldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Matip ræðir við James Rodriguez hjá Everton á laugardaginn var en á sama tíma er Fabinho að tala við dómara leiks Liverpool og Everton.
Joel Matip ræðir við James Rodriguez hjá Everton á laugardaginn var en á sama tíma er Fabinho að tala við dómara leiks Liverpool og Everton. Getty/Peter Byrne

Virgil van Dijk verður líklega ekki meira með Liverpool á leiktíðinni en hann er ekki eini miðvörður liðsins sem glímir við meiðsli eftir nágrannaslaginn á móti Everton.

Virgil van Dijk sleit krossband eftir hryllilega tæklingu Jordan Pickford í jafntefli á móti Everton um helgina og missir því augljóslega af fyrsta Meistaradeildarleik Liverpool liðsins sem er á móti Ajax á miðvikudagskvöldið.

Svo gæti farið að annar miðvörður Liverpool missi af þessum leik í Amsterdam.

Joel Matip þurfti að fara í myndatöku eftir leikinn á móti Everton. Joel Matip byrjaði leikinn og spilaði síðan í miðri vörninni með Joe Gomez eftir að Virgil van Dijk fór meiddur af velli.

Meiðsli Matip voru ekki alvarleg en það gæti verið áhætta fyrir Jürgen Klopp að spila honum á móti Ajax.

Hinn 29 ára gamli Joel Matip er nýkominn til baka eftir meiðsli og kannski það skynsamlegasta í stöðunni að skilja hann eftir heima til að ná sér alveg góðum fyrir þétta leikjadagskrá á næstunni.

Klopp gæti ákveðið að spila Fabinho í miðvarðarstöðunni í Ajax leiknum en Brasilíumaðurinn hefur spilað þá stöðu þótt hann sé bestur inn á miðjunni.

Klopp fékk á sig smá gagnrýni að auka ekki breiddina í miðvarðarstöðunum eftir að Dejan Lovren var seldur til Zenit Saint Petersburg og Ki-Jana Hoever var seldur til Wolverhampton Wanderers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×