Erlent

„Hann var bara að skemmta sér“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lara Trump, Gretchen Whitmer og Donald Trump.
Lara Trump, Gretchen Whitmer og Donald Trump. Vísir/AP

Lara Trump, tengdóttir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir hann bara hafa verið að gantast á kosningafundi í gær, þar sem hann virtist styðja það að handtaka ætti Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan. Rúm vika er síðan Alríkislögregla Bandaríkjanna opinberaði að ráðabrugg hægri öfgamanna um að ræna Whitmer og rétta yfir henni fyrir landráð.

Ríkisstjórinn segir að Trump eigi að hætta að ýta undir ofbeldi gegn embættismönnum og blása lífi í heimaræktaða hryðjuverkamenn og þess í stað snúa sér að því að berjast gegn faraldri nýju kórónuveirunnar.

Trump var með stuðningsmönnum sínum í Muskegon í Michigan í gær. Þar krafðist hann þess að Whitmer felldi úr gildi þær ferðatakmarkanir og aðrar ráðstafanir vegna faraldursins og byrjuðu stuðningsmenn hans að kalla: „Læsið hana inni“.

„Læsið þau öll inni,“ sagði forsetinn.

Seinna á fundinum gagnrýndi Trump Whitmer aftur og við það byrjuðu stuðningsmenn hans aftur að kalla eftir handtöku hennar. Þá leyfði hann þeim að kalla í nokkra stund og gagnrýndi hana svo fyrir að hafa kennt honum um að reynt hafi verið að ræna henni.

Sjá einnig: Setti ráða­bruggið í sam­hengi við orð­ræðu Trumps

Lara Trump, tengdadóttir forsetans og ráðgjafi í framboði hans, var spurð um málið á CNN í dag. Þar var hún sérstaklega spurð að því hvort Trump ætti ekki að draga úr áróðri sínum gagnvart Whitmer. Hún hefði sjálf sagt að hann væri hættulegur.

Hún sagði að það sem kom fyrir Whitmer ætti ekki að koma fyrir neinn. Sagði hún einnig að það hefði verið Dómsmálaráðuneyti Trump sem hefði komið í veg fyrir árásina, sem endurspeglar það sem Trump sjálfur hefur sagt þar sem hann hefur gagnrýnt Whitmer fyrir að þakka honum ekki fyrir að ráðabruggið hafi verið stöðvað.

Lara Trump sagði að hún fengi sjálf ítrekað hótanir á samfélagsmiðlum.

Jake Tapper, fréttamaður CNN, benti henni þó á að Joe Biden og aðrir Demókratar væru ekki að kalla eftir slíku eða ýta undir það.

„Hann var ekki að gera neitt, held ég, sem ýtti undir ofbeldishótanir gegn henni. Hann var að skemmta sér,“ sagði Lara Trump. Hún sneri sér þá að því hvað allir væru pirraðir yfir sóttvarnaaðgerðum og umræðan á kosningafundinum hefði bara verið á léttum nótum.

„Auðvitað var hann ekki að hvetja fólk til að ógna þessari konu. Það er fáránlegt,“ sagði hún.

Whitmer var sjálf í Meet the Press á NBC í dag. Þar gagnrýndi hún Trump harðlega. Hún sagði það ótrúlega ógnvænlegt að tíu dögum eftir að ráðabrugg öfgamanna um að taka hana af lífi hefði verið stöðvað, væri forsetinn enn að ýta undir hryðjuverk sem slík.

„Það er rangt og það þarf að stöðva þetta,“ sagði hún. „Þetta er hættulegt. Ekki bara fyrir mig og mína fjölskyldu heldur embættismenn alls staðar, sem eru að vinna vinnu sína og reyna ða vernda aðra Bandaríkjamenn.

Hún sagði að bæði Demókratar og Repúblikanar þyrftu að taka höndum saman til að stöðva áróður sem þennan og draga úr spennu.


Tengdar fréttir

Flytja þurfti fjölskyldu Whitmer vegna öfgamanna

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, og fjölskylda hennar voru flutt á milli felustaða af lögregluþjónum á meðan fylgst var með mönnum sem lögðu á ráðin með að ræna henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×