Enski boltinn

Ekki valdir eftir brot sitt á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Foden (t.v.) og Greenwood komu báðir við sögu á Laugardalsvelli þegar England vann Ísland 1-0.
Foden (t.v.) og Greenwood komu báðir við sögu á Laugardalsvelli þegar England vann Ísland 1-0. Vísir/Getty

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, telur að það myndi senda út röng skilaboð að velja Mason Greenwood og Phil Foden í næsta landsliðshóp sinn eftir að þeir brutu reglur um sóttkví á Íslandi.

Þetta er fullyrt á vef Sky Sports þar sem segir að knattspyrnumennirnir ungu verði að öllum líkindum ekki í hópnum sem Southgate tilkynnir á morgun. England mætir Belgíu og Danmörku í Þjóðadeildinni í október, rétt eins og Ísland mun gera, auk þess að spila vináttulandsleik við Wales.

Greenwood og Foden voru sendir beint heim frá Íslandi og fóru ekki með í leikinn við Danmörku, eftir að þeir urðu uppvísir að því að hafa boðið tveimur íslenskum konum á hótel enska landsliðsins í Reykjavík. Það gerðu þeir þvert á þær sóttvarnareglur sem gilda á Íslandi og fengu sekt fyrir. Southgate virðist ekki telja líðandi að þeir komi strax aftur í landsliðshópinn líkt og ekkert hafi í skorist.

Sky Sports telur líklegt að Southgate velji 27 leikmenn þó að hann megi aðeins nota 23 leikmenn í hverjum leik. Það sé vegna mikils leikjaálags auk óvissunnar sem kórónuveirufaraldurinn skapi.

Harry Maguire verður samkvæmt Sky boðinn velkominn aftur í enska landsliðshópinn en hann fór ekki með til Íslands og Danmerkur í byrjun þessa mánaðar. Maguire hafði þá verið dæmdur í 21. mánaðar skilorðsbundið fangelsi í Grikklandi, fyrir líkamsárás og mútutilraunir.


Tengdar fréttir

Greenwood og Foden greiða 250 þúsund krónur í sekt

Mason Greenwood og Phil Foden, leikmenn enska landsliðsins, hafa lítinn áhuga á að dvelja á Íslandi stundinni lengur og má reikna með því að innan klukkustundar hafi þeir greitt 250 þúsund króna sekt fyrir brot á sóttkví.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.