Enski boltinn

Ungstirni Englands fengu íslenskar stelpur upp á herbergi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mason Greenwood og Phil Foden héldu upp á fyrsta landsleikinn með því að fá heimsókn á hótel enska landsliðsins.
Mason Greenwood og Phil Foden héldu upp á fyrsta landsleikinn með því að fá heimsókn á hótel enska landsliðsins. getty/hafliði breiðfjörð

Ungstirni enska landsliðsins, Mason Greenwood og Phil Foden, brutu sóttvarnarreglur þegar þeir fengu tvær íslenskar stelpur upp á hótel til sín um helgina. Frá þessu var fyrst greint á 433.is. Leikmennirnir æfðu ekki með landsliðinu á Laugardalsvelli í morgun.

Greenwood og Foden léku báðir sinn fyrsta A-landsleik fyrir England þegar liðið vann Ísland, 0-1, í Þjóðadeildinni á laugardaginn. 

„Mjög fokking stressuð“

Strákarnir héldu upp á áfangann með því að bjóða tveimur íslenskum stelpum á Hótel Sögu í Reykjavík sem enska liðið dvelur á. Stelpurnar greindu frá hótelheimsókninni á Snapchat þar sem eftirfarandi samtal fór meðal annars fram: 

Kona 1: Það er Sunday hjá okkur XXXX og við vorum að bóka hótel. Til að hitta hvern?

Kona 2: Mason Greenwood

Kona 1: Sem að spilar með Manchester. Og ég er bara eitthvað að fara að joina, gista með henni á hótelinu. How do you feel?

Kona 2: Stressuð, mjög fokking stressuð.

Í framhaldinu birtu þær stutt myndband sem er greinilega tekið á hótelherberginu þar sem sjá má þá Greenwood og Foden.

Ljóst er að Greenwood og Foden gerðust þarna sekir um brot á sóttvarnarreglum. Í landsliðsferðum eiga leikmenn að halda sig mest inni á hótelinu og forðast samskipti við aðra en samherja sína eða starfsfólk landsliðsins.

Til samanburðar hefur íslenski landsliðshópurinn haldið sig alveg útaf fyrir sig síðan hann kom saman á mánudag. Leikmenn fá ekki að hitta börn sín eða fara í anddyri hótelsins. Liðið er nú komið til Belgíu þar sem liðið mætir heimamönnum á morgun.

Miður sín að myndbandið hefði farið í umferð

Stelpurnar ræddu málið við 433.is en gáfu lítið upp. Önnur þeirra sagðist ekki vilja ræða málið til að koma þeim Greenwood og Foden ekki í frekari vandræði.

Þær sögðust miður sín yfir því að myndbandið hafi farið í umferð, það hafi aðeins verið hugsað fyrir nána vini.

Greenwood, sem er átján ára, er einhleypur en hinn tvítugi Foden er í sambandi og á strák á öðru ári.

Englendingar, sem æfðu á Laugardalsvelli í morgun, halda af landi brott seinna í dag og fara til Kaupmannahafnar þar sem þeir mæta Dönum í öðrum leik sínum í Þjóðadeildinni. Greenwood og Foden verða ekki hluti af leikmannahópi Englands en hvorugur æfði með liðinu í morgun. 

Uppfært: Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðins, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að hann væri meðvitaður um að tveir leikmenn liðsins hefðu brotið sóttvarnareglur. Hann ætlar ekki að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×