Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, tjáði sig um Mason Greenwood í dag í fyrsta sinn eftir að Greenwood var sendur heim frá Íslandi fyrir að brjóta reglur um sóttkví.
Greenwood og Phil Foden, leikmaður Manchester City, fengu íslenskar stelpur í heimsókn á hótel enska landsliðsins eftir 1-0 sigurinn á Íslandi í Þjóðadeildinni fyrir tveimur vikum.
Solskjær sagði að Greenwood, sem er aðeins 18 ára, hefði þurft á hvíld að halda í stað þess að ferðast með enska landsliðinu í leikinn. Ný leiktíð hefst hjá United á morgun þegar liðið mætir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni en síðustu leiktíð United lauk 16. ágúst.
„Auðvitað er ég búinn að tala við Mason,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag. „Það sem við ræðum er bara á milli okkar tveggja. Strákurinn átti stórkostlega leiktíð, er nýkominn fram á sjónarsviðið, og bæði ég og allt starfsfólk félagsins höfum lagt hart að okkur til að hugsa um hann; hvenær við gefum Mason tíma á vellinum, hvenær hann tali við fjölmiðla… Þegar tímabilinu lauk svo og við höfðum innan við tvær vikur í frí var hann kallaður í landsliðið,“ sagði Solskjær, og virtist óánægður með Gareth Southgate landsliðsþjálfara.
„Ég verð að segja eins og er að ég reyndi að gefa honum [Greenwood] hvíld yfir sumarið. Við hjá félaginu bentum sérstaklega á að hann þyrfti á hvíld að halda. Hann þarf hana bæði fyrir líkamann og andlegu hliðina eftir þessa leiktíð sem hann átti, en það fyrsta sem gerist er að hann er kallaður í landsliðið og það næsta er að hann lendir í fjölmiðlunum,“ sagði Solskjær.
„Við höfum gert það sem við getum til að vernda hann og ég mun halda áfram að hjálpa honum. Ég veit að nú þegar hann kemur aftur í daglegu rútínuna hjá félaginu þá verður hann í góðu lagi,“ sagði Solskjær.