Íslenski boltinn

Missti leikmann í sóttkví korteri fyrir leik

Atli Freyr Arason skrifar
Sterkur sigur Þórs/KA
Sterkur sigur Þórs/KA vísir/bára

Andri Hjörvar, þjálfari Þór/KA var vissulega mjög ánægður með liðið sitt í dag eftir 1-2 sigur á FH í fallbaráttuslag í Pepsi-Max deild kvenna.

„Æðislega ánægður og stoltur af stelpunum sem gáfu allt í þetta. Ekki fallegur fótbolti en þær gerðu það sem þær þurftu að gera og það skilaði okkur þessum þremur stigum. Við erum allar alveg rosalega ánægðar akkúrat núna,“ sagði Andri í viðtali við Stöð2Sport í leikslok.

Uppskriftin af sigrinum í dag var að Andra mati ekkert svo flókinn.

„Berjast, berjast og hlaupa. Hafa þetta einfalt og hafa boltann eins mikið á þeirra vallarhelming og við gátum. Við þurftum ekkert að einbeita okkur að einhverju fancy spili og einhverju þannig heldur bara fara strax í einfaldleikann, njóta þess að vera á vellinum og hlaupa fyrir hvora aðra,“ sagði Andri Hjörvar.

Þór/KA mætti til leiks í dag með einungis 4 varamenn á bekknum og vakti það furðu hjá einhverjum. Aðspurður að því hvers vegna hópurinn hjá Þór/KA var svona þunnskipaður í dag sagði Andri:

„Það eru fjölskyldu tengdar aðstæður sem komu upp hjá einum leikmanni sem þurfti að hverfa frá. Svo fengum við þær fregnir fyrir leik að ein okkar þurfti að fara í sóttkví og svo bara koll af kolli. Það er ýmislegt búið að dynja á okkur og við erum búnar að halda bara áfram í gegnum súrt og sætt síðustu vikur. Þetta er búið að vera svolítið eins og upp og niður rússíbani hvað það varðar. Það eru örugglega fleiri lið sem hafa lent í slíku, til dæmis KR-ingar. Þetta er bara staðan í dag og við verðum bara að gjöra svo vel að klára þetta mót með þeim leikmönnum sem við höfum, bara að berjast meira og hlaupa meira.“

Allt KR liðið hefur þrisvar sinnum þurft að fara í sóttkví í sumar vegna covid smita innan liðsins. Ef þessi leikmaður í sóttkví greinist smituð af veirunni, þarf þá ekki allt Þór/KA liðið að fara líka í sóttkví?

„Já ég held það, ég veit svo sem ekki alveg forsöguna en mér var bara sagt það að hún væri ekki að fara að spila. Þetta er eitthvað sem er tengt henni og við vildum ekki taka neinar áhættu. Það getur vel verið að hún þurfi ekki einu sinni að vera lengi í sóttkví. Ég fékk bara SMS korter í leik að hún myndi ekki spila í dag,“ sagði Andri Hjörvar um stöðuna sem upp er kominn.

Þór/KA var ekki eina liðið sem missti leikmann í sóttkví rétt fyrir leik í dag því lykilmaður í Olís-deildarliði KA, Áki Egilsnes, þurfti einnig frá að hverfa vegna sóttkvíar rétt fyrir leik KA og Gróttu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.