Erlent

Átök milli lög­reglu og sam­komu­banns­mót­mælenda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur á Trafalgar torgi í dag.
Mótmælendur á Trafalgar torgi í dag. EPA-EFE/ANDY RAIN

Til átaka kom á mótmælum í miðborg Lundúnum í dag, þar sem stór hópur fólks mótmælti útgöngubanni. Lögregla var að reyna að dreifa hópnum vegna þess að fjarlægðarmörkum var ekki fylgt.

sögn lögreglu voru tíu handteknir og fjórir lögreglumenn slösuðust. Tveir þeirra þurftu að leita sér læknisaðstoðar á sjúkrahúsi. „Við hvetjum hópa enn að dreifa úr sér,“ skrifaði lögregla Lundúna á Twitter.

Mótmælendur kyrjuðu „Frelsi“ og héldu á skiltum sem á stóð „Við samþykkjum þetta ekki“ og „Covid 1984,“ með vísan í bókina 1984 eftir George Orwell. Þúsundir voru viðstaddir mótmælunum en mótmælendur höfðu komið sér fyrir á Trafalgar torgi til þess að mótmæla samkomutakmörkunum sem settar hafa verið til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Margir mótmælenda sögðu í samtali við fréttamenn á svæðinu að þeir teldu faraldurinn vera uppspuna yfirvalda, sem hafi verið búinn til til þess að stjórna almenningi.

Lögregla skipaði mótmælendunum að dreifa úr sér þar sem þeir fylgdu ekki fjarlægðarreglum og báru ekki grímur fyrir vitum og fylgdu því ekki sóttvarnareglum, en nú er í gildi sex manna samkomutakmark á Bretlandi.

Á myndskeiðum sjást lögreglumenn þá nota kylfur til að stía fólki í sundur.

„Við viljum vera alveg skýr, þessi mótmæli eru ekki undanskilin sóttvarnareglum.,“ skrifaði lögregla Lundúna á Twitter. „Við biðjum þá sem eru viðstaddir að dreifa úr sér. Því miður slösuðust nokkrir lögreglumenn eftir að hafa átt í samskiptum við mótmælendur.“

Svipuð mótmæli fóru fram í Lundúnum um síðustu helgi en þá voru 32 handteknir. Voru þeir handteknir meðal annars vegna ofbeldis og fyrir að hafa ráðist á framlínustarfsmann. Tveir lögreglumenn særðust lítillega við þau mótmæli.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í liðinni viku hertari samkomutakmarkanir og bað hann fólk um að vinna heima ef það gæti það. Þá var veitingastöðum og krám gert að loka fyrr vegna fjölgunar kórónuveirutilfella.


Tengdar fréttir

Ísland á rauðan lista Breta

Frá og með klukkan fjögur að morgni laugardagsins 26. september þurfa ferðamenn frá Íslandi, Danmörku, Slóvakíu og Curacao að fara í fjórtán daga sóttkví.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×