Erlent

Vara við veldisvexti í fjölda smitaðra í Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Nú er talið að um 8% fólks á Bretlandi hafi smitast af kórónuveirunni en jafnvel allt að 17% í London. Faraldurinn gæti því enn versnað verulega.
Nú er talið að um 8% fólks á Bretlandi hafi smitast af kórónuveirunni en jafnvel allt að 17% í London. Faraldurinn gæti því enn versnað verulega. AP/Matt Dunham

Lýðheilsusérfræðingar bresku ríkisstjórnarinnar vöruðu við því að vatnaskil hafi orðið í kórónuveirufaraldurinn á neikvæðan hátt í dag. Þeir segjast óttast að veldisvöxtur verði í fjölda smitaðra verði ekki gripið snarlega inn í.

Greint var frá því að tæplega 3.900 manns hefðu greinst smitaðir og átján látið lífið af völdum veirunnar í gær. Líkt og víðar annars staðar í Evrópu hefur smituðum farið fjölgandi í Bretlandi að undanförnu. Daglegur fjöldi smitaðra nú er sambærilegur við þann sem var í maí. Síðustu vikuna hefur 21 dáið að meðaltali á dag.

Patrick Vallance, aðalvísindamaður ríkisstjórnarinnar, og Chris Whitty, aðallæknisfræðiráðgjafi hennar, voru ómyrkir í máli á upplýsingafundi um stöðu faraldursins í morgun. Um 50.000 ný smit gætu greinst daglega um miðjan október verði ekkert að gert. Það gæti þýtt um 200 dauðsföll á dag.

„Eins og stendur teljum við að faraldurinn tvöfaldist gróft áætlað með sjö daga millibili,“ sagði Vallance en lagði áherslu á að ekki væri um spá að ræða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sögðu tvímenningarnir að engar vísbendingar væru um að veiran væri ekki eins skæð nú og fyrr í faraldrinum þvert á fullyrðingar þess gagnstæða.

Stjórnvöld hertu sóttvarnaraðgerðir á norðaustanverðu Englandi þegar smituðum fjölgaði þar í síðustu viku. Barir og veitingastaðir eru lokaðir þar frá 22:00 til 5:00 og fólki er bannað að umgangast einstaklinga sem búa ekki á sama heimili.

AP-fréttastofan segir að ríkisstjórn Boris Johnson forsætisráðherra íhugi nú hvernig hún eigi að bregðast við uppgangi faraldursins. Búist er við því að hún kynni hertar aðgerðir síðar í þessari viku.


Tengdar fréttir

Dregur úr dánar­tíðni kórónu­veiru­smitaðra

Færri kórónuveirusmitaðir einstaklingar láta nú lífið af völdum veirunnar en í vor. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Oxford-háskóla í Bretlandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.