Íslenski boltinn

Tíu ár frá því Blikar urðu Íslandsmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olgeir Sigurgeirsson og Kári Ársælsson búa sig undir að lyfta Íslandsmeistarabikarnum.
Olgeir Sigurgeirsson og Kári Ársælsson búa sig undir að lyfta Íslandsmeistarabikarnum. mynd/blikar.is

Í dag, 25. september, eru tíu ár síðan karlalið Breiðabliks vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fótbolta. Blikar tryggðu sér titilinn með því að gera markalaust jafntefli við Stjörnumenn á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Fyrir lokaumferðina í Pepsi-deildinni 2010 áttu þrjú lið möguleika á að verða Íslandsmeistari. Breiðablik var á toppnum með 43 stig, einu stigi meira en ÍBV og tveimur stigum meira en FH sem hafði orðið Íslandsmeistarar 2008 og 2009.

Öll liðin áttu útileiki í lokaumferðinni. FH sótti Fram heim, ÍBV mætti Keflavík suður með sjó og Breiðablik fór í Garðabæinn. Það flækti málin fyrir Blika að fyrirliðinn Kári Ársælsson og markahæsti leikmaður liðsins, Alfreð Finnbogason, voru í banni gegn Stjörnumönnum.

„Þetta voru mjög erfiðar 90 mínútur,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þáverandi þjálfari Breiðabliks, þegar hann rifjaði upp leikinn gegn Stjörnunni laugardaginn 25. september 2010 með Guðmundi Benediktssyni í Sportinu í kvöld.

Taugar Blika voru þandar í leiknum á meðan Stjörnumenn höfðu ekki að neinu að keppa. Kristinn Steindórsson fékk besta færi fyrri hálfleiks en skaut framhjá.

Hjörtu stuðningsmanna Breiðabliks tóku síðan nokkur aukaslög á 66. mínútu þegar boltinn fór af Daníel Laxdal, fyrirliða Stjörnunnar, og stefndi á markið. En Ingvar Þór Kale kom sínum mönnum til bjargar og sló boltann yfir.

Á Laugardalsvellinum vann FH öruggan sigur á Fram, 0-3, en ÍBV tapaði fyrir Keflavík, 4-1. Markalausa jafnteflið dugði því Breiðabliki til að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Blikar fengu 44 stig, jafnmörg og FH-ingar, en voru með betri markatölu.

Klippa: Fagnaðarlæti Breiðabliks 2010

Í Sportinu í kvöld sagði Ólafur að Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar og forveri hans í starfi hjá Breiðabliki, hafi tilkynnt honum að Blikar væru orðnir meistarar.

„Ég get sagt þér núna hvað fór á milli mín og Bjarna. Ég labba þarna eins og í einhverri leiðslu og það var ekki gleði að sjá á svip þessa þjálfara. Það var ekki vegna þess að það væri ekki gleði. Ég var bara ekki búinn að meðtaka þetta. Ég labbaði að fjórða dómaranum og einhverjum Stjörnumönnum, og svo segir Bjarni „til hamingju“, og ég svara „er þetta búið? Eru hinir leikirnir búnir?“ Hann staðfestir það og þá fer þetta svona að síast inn að þetta sé komið,“ sagði Ólafur.

Íslandsmeistaratitilinn 2010 var annar stóri titill Blika á jafn mörgum árum. Breiðablik varð bikarmeistari 2009 eftir sigur á Fram í vítaspyrnukeppni.

Íslandsmeistaralið Breiðabliks 2010 var að mestu skipað ungum og uppöldum Blikum. Má þar nefna Alfreð, nafnana Kristinn Steindórsson og Jónsson, Elfar Frey Helgason, Guðmund Kristjánsson og Finn Orra Margeirsson. Allir þessir leikmenn fóru síðan út í atvinnumennsku ásamt Arnóri Sveini Aðalsteinssyni sem er aðeins eldri.

Íslandsmeistaralið Breiðabliks 2010.mynd/blikar.is

Þrír úr Íslandsmeistaraliðinu 2010 leika með Breiðabliki í dag: Elfar, Kristinn Steindórsson og Andri Rafn Yeoman sem spilaði allan leikinn gegn Stjörnunni fyrir tíu árum, þá aðeins átján ára. Þá er Jökull Elísabetarson, sem átti frábært tímabil 2010, í þjálfarateymi Breiðabliks í dag.

Að tímabilinu 2010 loknu var Alfreð valinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar og Kristinn Steindórsson efnilegastur. Alfreð skoraði fjórtán mörk í Pepsi-deildinni líkt og Grindvíkingurinn Gilles Ondo og FH-ingurinn Atli Viðar Björnsson. Kristinn skoraði tólf mörk. Þeir Alfreð skoruðu samtals 26 af 47 mörkum Breiðabliks en samvinna þeirra var einstök.

Íslandsmeistaralið Breiðabliks 2010

Leikmenn (leikir/mörk/stoðsendingar)

  • Kristinn Steindórsson 22/12/6
  • Ingvar Þór Kale 22
  • Finnur Orri Margeirsson 22/0/2
  • Alfreð Finnbogason 21/14/6
  • Kári Ársælsson 21
  • Guðmundur Kristjánsson 21/5/2
  • Jökull Elísabetarson 21/1/2
  • Olgeir Sigurgeirsson 20/2/2
  • Kristinn Jónsson 20/0/8
  • Haukur Baldvinsson 20/3/3
  • Guðmundur Pétursson 19/3/2
  • Elfar Freyr Helgason 19/1/1
  • Arnór Sveinn Aðalsteinsson 19/1/2
  • Andri Rafn Yeoman 17/2/2
  • Árni Kristinn Gunnarsson 12
  • Rannver Sigurjónsson 3
  • Tómas Óli Garðarsson 2/0/1
  • Elvar Páll Sigurðsson 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×