Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - FH 1-4 | Fjórði sigur FH í röð

Andri Már Eggertsson skrifar
FH - Víkingur Pepsí max deild ksí íslandsmót karla, sumar 2020
FH - Víkingur Pepsí max deild ksí íslandsmót karla, sumar 2020 Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Það fóru fram fimm leikir í Pepsi Max deildinni í kvöld, á Würth vellinum áttust við Fylkir og FH, FH hafði verið í miklum gír í síðustu leikjum á meðan Fylkir höfðu tapað fyrir Norðan í síðustu umferð.

Leikurinn hófst ekki með miklum látum bæði lið voru passív í sínum aðgerðum. Leikurinn þróaðist síðan út í það að FH voru líklegri til að skora heldur en Fylkir.

Björn Daníel fékk fyrsta færi leiksins eftir að Ólafur Karl hafði gefið á hann með hælspyrnu náði hann góðu skoti sem Aron Snær Friðriksson varði frábærlega.

Ólafur Karl Finsen fékk síðan dauðafæri eftir gott uppspil FH sem endar með að Þórir Jóhann rennur boltanum inn í teig á Ólaf Karl sem á fast skot niðri í fjærhornið en Aron Snær gerði vel í að verja.

Arnór Gauti fékk bestu færi Fylkis en hann fékk tvö svipuð færi sem endaði með skoti frá honum fyrir utan teig rétt yfir markið.

FH mætti af krafti inn í seinni hálfeikinn og voru rétt tæplega 4 mínútur búnar af seinni hálfleik skorar Björn Daníel Sverrisson fyrsta mark leiksins með góðum skalla eftir hornspyrnu frá Ólafi Karli Finsen.

Björn Daníel var síðan aftur á ferðinni þegar boltinn hafði viðkomu í leikmanni Fylkis og skoppaði boltinn fyrir Björn Daníel sem hamraði knettinum í markið rétt fyrir utan teig.

Ólafur Karl Finsen bætti síðan við þriðja marki FH þegar hann lék á vörn Fylkis og þrumaði boltanum með jörðu í fjærhornið.

Arnór Gauti Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Fylki þegar Þórður Gunnar Hafþórsson gaf sendingu meðfram jörðu inn í teig á Arnór Gauta sem kláraði færið.

Morten Beck átti síðan gott þríhyrningaspil með Jónatan Inga sem kom Dananum í góða stöðu en skot hans fór í Ragnar Braga og inn í markið, rosalegur 10 mínútna kafli sem endaði með fjórum mörkum.

Af hverju vann FH?

FH voru betri allan leikinn það var mikill kraftur í FH liðinu og í fyrri hálfleik áttu þeir í erfiðleikum með að koma boltanum framhjá Aroni í marki Fylkis en eftir að fyrsta markið kom var þetta aldrei spurning og gengu þeir á lagið með 4-1 sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Björn Daníel Sverrisson var frábær í FH liðnu hann var allt í öllu á miðjunni hjá FH sem lítur mjög vel út þessa stundina, Björn Daníel skoraði tvö mörk og var seinna markið hans glæsilegt þegar hann hamraði boltanum í markið fyrir utan teig.

Ólafur Karl Finsen var góður sem fremsti maður FH í kvöld hann setti mikla pressu á vörn og markmann Fylkis sem gerði þeim oft erfitt fyrir.

Ólafur Karl lagði síðan upp fyrsta mark leiksins og skoraði síðan laglegt mark sjálftur þar sem hann lék á alls oddi í teig Fylkis.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Fylkis var ekki góður í kvöld, þó liðið hélt marki sínu hreinu fyrstu 45 mínútur leiksins fengu FH fullt af færum sem þeir nýttu ekki, eftir að FH braut ísinn virtist andinn detta úr þeim og gáfu þeir endalaust af færum á sig.

Hvað er framundan?

Heil umferð er á dagskrá næsta fimtudag í Pepsi Max deildinni. Fylkir fá heimaleik á móti Víking Reykjavík klukkan 19:15.

Stórleikur umferðarinnar verður síðan í Kaplakrika þar sem FH og Valur mætast klukkan 16:15 og er orðið ljóst að þetta eru þau tvö lið sem ætla keppa um Íslandsmeistara titilinn.

Ólafur Stígsson: Heppnir að fá ekki á okkur mark í fyrri hálfleik

„Við vorum heppnir að fá ekki á okkur mark í fyrri hálfleik, við vorum slakir varnarlega og var góð spilamennska FH að gera okkur erfitt fyrir, við hefðum átt að loka betur fyrir varnarlega þar sem uppspilið hjá þeim var mjög auðvelt,” sagði Ólafur svekktur með frammistöðu leiksins.

Ólafur var svekktur með sitt lið og átti hann í miklum erfiðleikum með að finna jákvæða punkta frá þessu 4-1 tapi í kvöld.

„Ég er þó bjartsýnn á framhaldið það koma svona leikir sem gera mann mjög pirraðan en við látum ekki einn leik skemma allt fyrir okkur þar sem sumarið er búið að vera fínt.”

Eiður: Fyrsta markið eftir hornspyrnu síðan ég og Logi tókum við

„Við hefðum auðveldlega getað verið yfir í fyrri hálfleik fengum færi til að skora eitt eða tvö mörk og var spilið einnig gott. Við skorum fyrsta markið úr hornspyrnu eftir að við tókum við liðinu og síðan var heildar frammistaða liðsins nokkuð góð,” Sagði Eiður Smári.

Björn Daníel Sverrisson var allt í öllu í liði FH í dag og skoraði hann tvö fyrstu mörk leiksins, Eiður er oftast ánægður með hans framlag en þegar hann skilar tveimur mörkum þá slakar það á taugum þjálfarateymisins.

Það var markasúpa á 10 mínútna kafla í leiknum þar sem fjögur mörk litu dagsins ljós.

„Það koma mörk með stuttu millibili og er óhætt að segja að með þriðja markinu er sigurinn í höfn en við komum þeim inn í leikinn með að fá þetta mark á okkur en það er jákvætt að við svöruðum strax aftur með marki.”

Það er orðið ljóst að barráttan um Íslandsmeistaratitilinn er á milli Vals og FH, næsti leikur FH er á móti Val í Kaplakrika.

„Ég hef alltaf sagt það að við endum í deildinni þar sem við eigum skilið, við tökum þennan sigur með okkur og byrjum að undirbúa okkur fyrir Valsleikinn á morgunn,” sagði Eiður Smári og bætti hann við að hann var ánægður með orkuna í liðinu og öll þau færi sem liðið skapaði sér á móti sterku liði Fylkis.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.